Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lögfræðidrama af dýrustu gerð

Mynd: CBS / CBS

Lögfræðidrama af dýrustu gerð

20.02.2017 - 16:20

Höfundar

Sjöunda og síðasta sería pólitísku dramaþáttanna The Good Wife var sýnd á síðasta ári. Síðustu mánuði hafa menningarblaðamenn vestanhafs keppst við að ausa þættina lofi og vilja sumir meina að síðasta serían marki endalok hinnar „Nýju gullaldar“ í sjónvarpi. Nú í byrjun febrúar hófu síðan göngu sína dótturþættir („spin-off“) seríunnar sem nefnast The Good Fight.

Standast Bechdel-prófið

The Good Wife hafa meðal annars hlotið lof fyrir femínískan brodd, og standast hið fræga Bechdel-próf. Er það próf sem byggir á myndasögunni Dykes to Watch Out for, frá árinu 1985, eftir bandaríska myndasöguhöfundinn Alison Bechdel. Prófið er óvísindalegt en þó mikið notað og nokkuð gagnlegt mælitæki til að leggja mat á þátt kvenna innan sögu í kvikmyndum og sjónvarpi.

Prófið spyr heldur einfaldrar spurningar:  „Kemur einhvern tímann fyrir að tvær eða fleiri konur tali sín á milli, og þá ef svo er, snýst umræðan um eitthvað annað en karlpersónu?“ Stundum er því einnig bætt við að umræddar kvenpersónur þurfi að vera nafngreindar.

Eiginkona á krossgötum

Það heyrir til undantekninga þegar svokallað lögfræðidrama stenst prófið, þó að þróunin fari batnandi. Þættirnir eru bandarískir og koma frá sjónvarpsstöðinni CBS. Hlutverk aðalpersónunnar er í höndum Juliönu Marguiles sem margir íslendingar ættu að muna eftir sem Carol úr vinsælustu sjónvarpsþáttum tíunda áratugarins, Bráðavaktinni (ER).

Í The Good Wife leikur hún Aliciu Florrick, eiginkonu mikilsvirts lögfræðings sem starfar hjá hinu opinbera. Hann verður uppvís að pólitískri spillingu og hefur í ofanálag stundað vændiskaup. Hann endar í fangelsi í framhaldinu og Alicia þarf að snúa sér aftur að fyrra starfi sínu sem lögfræðingur. Hún þarf að takast á við kastljós fjölmiðla, breyttan vinnumarkað, móðurhlutverkið og jafnvægi milli vinnu og einkalífs í þessu nýja og óvænta skipulagi. Í kjölfarið fylgir margþætt uppgjör: við sjálfið, hin ýmsu hlutverk í einkalífi og samfélagið allt.

Dægurmálin spegluð

Þættirnir taka óhikað á málum líðandi stundar í pólitík og tækni, og þykja mjög framarlega á því sviði. Sem dæmi um slík þemu er Bitcoin gjaldmiðilinn, Anonymous hreyfingin og NSA eftirlitstofnunin. Allt rúmast þetta heldur hæglega innan sögunnar, auk þess sem þættirnir sækja einnig á dýpri mið. Sem dæmi má nefna leitina að hamingjunni og hina endalausu leit að sannri þekkingu.

Innblásið af sönnum atburðum

Þættirnir eru undir sterkum áhrifum frá raunverulegum málum úr bandarísku stjórnmálalífi, þar sem áhrifamenn hafa orðið uppvísir af kynferðislegum hneykslismálum. Þykir áberandi hvernig eiginkonur þeirra standa gjarnan þeim við hlið í rokinu sem fylgir í kjölfarið, en oft er um að ræða mikið menntaðar konur sem hafa dregið sig út af vinnumarkaði til þess að styðja eiginmenn sína. Höfundar þáttanna tóku fram að sérstaklega hefði verið horft til hneykslismáls Eliot Spitzer frá árinu 2008, og þar hafi orðið eiginleg kveikja að þáttunum.

Dóttursería í byrjun þessa árs

The Good Wife koma í sjö seríum. Þær eru langar, fyrstu tvær seríurnar eru 23 þættir og þær seinni 22. Því er um afskaplega mikið efni að ræða. Þættirnir hafa hlotið frábærar viðtökur gagnrýnenda og meðal annars hlotið fimm Emmy-verðlaun.

Í febrúar 2017 fór svo af stað ný þáttasería, dóttursería eða  „spin-off “ af The Good Wife, sem ber nafnið The Good Fight. Fylgir sú sería sögu persónunnar Diane Lockhart sem er ein af vinsælustu aukapersónum The Good Wife.

The Good Wife eru aðgengilegir á Netflix.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Óþægilegt erindi við samtímann

Sjónvarp

Hægvarp á hraðri uppleið

Sjónvarp

Franskt sjónvarp fetar nýjar slóðir

Sjónvarp

Sherlock færður til nútímans