Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lög um staðgöngumæðrun nái til allra hópa

18.11.2014 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur verið lagt fram hjá Velferðarráðuneytinu. Formanni Samtakanna ´78 finnst einkennilegt að fjölmiðlar leggi áherslu á að samkynhneigðir karlar geti þar mað nýtt sér staðgöngumæðrun.

Velferðarráðuneytið birti í dag, til umsagnar, drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Frumvarpið samdi starfshópur sem velferðarráðherra skipaði haustið 2012. Í frumvarpinu koma fram ströng skilyrði sem þarf að uppfylla. Meðal annars er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að staðgöngumæðrun sé heimil þar sem líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu.

Í Fréttablaðinu í dag er þess getið að samkynhneigðir karlar geti þar með nýtt sér úrræðið. Hilmar Magnússon, formaður Samtakanna '78 segir það merkilegt að þessar áherslur séu sérstaklega dregnar fram. „Ég hélt satt að segja að við værum komin nær þeim stað að það þætti auðvitað bara sjálfsagt, að ef slíkt úrræði ætti að verða að lögum, þá myndi það að sjálfsögðu ná til allra hópa samfélagsins.“

Hilmar tekur fram að hann hafi ekki náð að kynna sér efni frumvarpsins í þaula. Staðgöngumæðrun sé afar umdeild innan samtakanna, eins og víðar í þjóðfélaginu og því hafi samtökin ákveðið að taka ekki afstöðu til málsins. „Hér er hugsanlega um ákveðna réttarbót að ræða, en við leggjum náttúrulega alltaf áherslu á það að mannréttindi eins hóps fari ekki að ganga á mannréttindi annars hóps. Þannig að þetta eru bara hlutir sem við þurfum að skoða nánar í þessu frumvarpi og í öllu þessu samhengi.“