Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lög brotin við talningu atkvæða í Reykjanesbæ

Mynd með færslu
Ráðhúsið í Reykjanesbæ. Mynd: Reykjanesbær
Talning atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ í vor var ekki lögum samkvæmt, að því er fram kemur í úrskurði Sýslumannsins á Suðurnesjum. Píratar kærðu framkvæmd talningarinnar þar sem talið var úr nokkrum kjörkössum fyrir luktum dyrum og samræmist það ekki ákvæðum laga.

Í úrskurðinum segir að í kæru Pírata hafi ekki komið fram að talning með þessum hætti hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna og því tók nefnd sýslumanns ekki til athugunar hvort að þær beri að ógilda.

Atkvæðin voru flokkuð í lokuðum sal eftir klukkan 18:30 á kjördag. Klukkan 21:20 voru flokkuð atkvæði talin í 50 stykkja búnt og þeim raðað á borð. Fortalning fór fram og klukkan 21:50 var lögð saman talning á fjölda flokkaðra búnta. Niðurstöður talningar voru svo tilbúnar klukkan 22:00. Samkvæmt 1. málsgrein 76. greinar laga nr. 5/1998 um sveitarstjórnarkosningar skal talning atkvæða fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að vera við, eftir því sem húsrúm leyfir.

Í lögunum er mælt með því að kjörseðlar séu fyrst flokkaðir eftir listabókstöfum sem við sé merkt á hverjum seðli og þeir síðan taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar. Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir