
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði heilbrigðisráðherra út í stöðuna á Alþingi í morgun. Hún spurði ráðherra beint hvort hann telji mögulegt að setja lög á verkfallið.
„Auðvitað er það mögulegt. Svarið við þeirri spurningu er já, það hlýtur að vera mögulegt. Fordæmin eru fyrir því að að setja lög á kjaradeilur, og í þeirri stöðu sem uppi er þá vil ég ekki útiloka neinn möguleika í dag. Það kemur einfaldlega ekki til greina, til þess er ástandið með þeim hætti að það er alltof alvarlegt, það þokar ekkert, samninganefndirnar ná ekki saman. Ég tel fulla ástæðu til þess að horfa út fyrir rammann ef að viðræður eru ekki að skila okkur neinu. Ég vil því ekki með neinum hætti loka á einhverja tillögu til lausnar í þeim efnum að reyna að ná saman deiluaðilum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson í svari sínu.
Rétt fyrir hádegi var samþykkt tillaga forseta Alþingis um að halda kvöldfund á Alþingi við mikil mótmæli þingmanna stjórnarandstöðunnar. Utanríkisráðherra var því hins vegar samþykkur og vill að þingfundur standi til morguns. Hann skoraði á forseta þingsins að sýna enga linkind við fundarstjórn. Engin starfsáætlun er á Alþingi en formenn stjórnmálaflokkanna funda klukkan fjögur í dag.