Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loftslagsbreytingar ógn við jöfnuð

Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að stóru áskoranirnar séu að tryggja velsæld og jöfnuð á tímum þar sem vitað er að loftslagsbreytingar muni hafa áhrif á samfélagið.

Þetta efni er til umræðu á fundi sem er hluti af afmælisdagskrá Vinstri grænna. Þar tala auk Katrínar: Ed Miliband þingmaður og fyrrum leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, Miatta Fanhbulleh framkvæmdastjóri New Economics Foundation, Kristina Háfoss fjármálaráðherra Færeyja og Beatrix Campell rithöfundur og aðgerðarsinni. 

Heiti fundarins er „Staða vinstrisins og hnattrænar áskoranir - viðbrögð við loftslagsbreytingum og félagslegum ójöfnuði á afturhaldstímum“.

Hver er þessi staða vinstrisins á hún erfitt uppdráttar? 

„Það held ég nú ekki. Við höfum nú verið aðeins að ræða stöðu vinstrisins og horft til baka. Við höfum verið að ræða það hvernig við höfum verið í þeirri stöðu að setja mál á dagskrá sem kannski fyrst þóttu hlægileg. Síðan var barist gegn þeim en eru nú orðin hluti af meginstraumnum. Og við getum talað um umhverfismál og femínisma og fleiri mál. En staða vinstrisins í samtímanum mótast auðvitað af nýjum áskorunum. Og við sjáum uppgang þess sem við köllum afturhaldssöm valdboðsstjórnmál um allan heim. Við sjáum uppgang hugmynda einangrunarhyggju og miðstýringar um allan heim. Og þá skiptir máli að vinstrið líti líka í eigin barm og skoði hver er staða þess í að berjast gegn slíkum stjórnmálum og tala fyrir mannvænlegri heimi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir rétt fyrir fundinn. 

Það eru tvö efni sem þið eruð að tala um. Það eru annars vegar þessar loftslagsbreytingar og hins vegar félagslegur ójöfnuður. Eru þetta málefni sem eru í hvað mestri hættu? 

„Við lítum á þetta sem stóru áskoranirnar. Hvernig ætlum við að tryggja velsæld og jöfnuð á tímum sem við vitum að loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á samfélagið. Hvernig getum við barist gegn þessum breytingum og um leið tryggt þessa velsæld. Jöfnuður hefur verið okkar aðalsmerki, félagslegt réttlæti og jöfnuður, alveg frá stofnun og það á ekki síður við nú en fyrir 20 árum. En um leið sjáum við ýmsar breytingar sem ógna jöfnuði í heiminum, aukna samþjöppun fjármagns í heiminum. Við sjáum líka tæknibreytingar, sem eiga eftir að breyta öllum vinnumarkaði, aukna sjálfvirknivæðingu. Hvaða áhrif mun það hafa á jöfnuð? Þannig að við viljum svolítið taka okkur upp úr því að ræða bara um flokkinn og tala um stóru myndina, hlutverk félagshyggjunnar í þessum heimi.“