Loftslagsbreytingar auka líkur á ófriði

08.09.2015 - 17:51
Mynd: EPA / EPA
12 milljónir manna eru nú á flótta vegna stríðsátakanna í Sýrlandi. Alls eru um 60 milljónir manna á flótta í heiminum. Langflestir eru að flýja stríðsátök, sem eiga sér flóknar og margþættar orsakir. Sífellt fleiri benda þó á loftslagsbreytingar sem eina af orsökum óstöðugleika í heiminum.

 

Frá árinu 2010 hefur bandaríska varnarmálaráðuneytið flokkað hlýnandi loftslag sem einn þeirra þátta sem valda óstöðugleika í heiminum.

Vísindamenn eru margir þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar og miklir þurrkar í Sýrlandi, séu meðal ástæðna fyrir því að upp úr sauð í Sýrlandi og borgarastyrjöld braust út. Miklir þurrkar voru á árunum 2007 til 2010 í Sýrlandi. Þeir ollu uppskerubresti og því að fjöldi bændafjölskyldna flutti til borga.

Verstu þurrkar sem vitað er um

Í PNAS, tímariti sem gefið er út af bandarísku vísindaakademíunni, birtist í fyrra grein þar sem því er haldið fram að ákveðnar sannarnir séu fyrir því að miklir þurrkar í Sýrlandi hafi átt þátt í því að borgarastyrjöld braust út í landinu. Í aðdraganda uppreisnarinnar hafi orðið verstu þurrkar sem skrásettir hafa verið. Áhrifin hafi verið sérstaklega alvarleg í Sýrlandi, vegna þess að landbúnaður þar sé ósjálfbær og umhverfisstefna léleg.

Einn af höfundum rannsóknarinnar, Richard Seager, segir að miklir fólksflutningar til borganna hafi aukið álagið á stofnanir samfélagsins, sem þegar höfðu tekið á móti fjölda fólks á flótta undan stríðinu í Írak. Matvælaverð hafi hækkað vegna þurrka og uppskerubrests og aukið mjög á fátækt. Seager vill ekki ganga svo langt að segja að þurrkarnir hafi valdið borgarastríðinu, einir og sér. En þeir séu einn af þeim þáttum sem leiddu til stríðsátaka. 

Í grein í tímariti bandaríska veðurfræðifélagsins komast höfundar að svipaðri niðurstöðu.

Útlit fyrir enn frekari þurrka

Þá hefur hitastig við austanvert Miðjarðarhafið farið hækkandi sem ýtir enn undir þurrka. Útlit er fyrir heitara loftslag og aukna þurrka um gjörvöll Miðausturlönd vegna loftslagsbreytinga. Þessu fylgir aukið álag á vatnsból og landbúnað. Mögulega ýtir skorturinn undir hættu á vopnuðum átökum. Í dag var greint frá miklum sandbyl fyrir botni Miðjarðarhafs. Veðurfræðingar að bylurinn sé sá mesti í manna minnum og hefur fólk verið hvatt til að halda sig innan dyra, í Líbanon og Ísrael.

Tengsl þurrka og vopnaðra átaka

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem bent er á að hækkandi hitastig geti verið undanfari uppreisna og vopnaðra átaka. Í rannsókn sem birt var árið 2009, voru líkur leiddar að því að tengsl væru milli þurrka og vopnaðra átaka í Afríku sunnan Sahara. http://www.scientificamerican.com/article/can-climate-change-cause-confl...
Gríðarlegt ofbeldi í Darfur-héraði í Suður-Súdan, sem jafnvel hefur verið kallað þjóðarmorð, hefur verið rakið til loftslagsbreytinga. Þá hefur því verið haldið fram að mótmælin í Egyptalandi, þar sem Hosni Mubarak var steypt af stóli 2011, hafi ekki bara verið hluti af öldu mótmæla í arabíska vorinu. Í aðdragandanum hafi líka verið miklir þurrkar og verð á matvælum hækkað verulega.

Sýrlendingar ekki loftslagsflóttamenn

Sérfræðingar sem blaðamenn breska dagblaðsins Guardina ræddu nýlega við, segja þó að ekki megi ýkja áhrif loftslagsbreytinga. Flóttafólk frá Sýrlandi sé ekki að flýja afleiðingar loftslagsbreytinga heldur borgarastyrjöld.

Ástæður styrjaldarinnar eru margþættar og flóknar, segir í Guardian. Átökin í Sýrlandi hefðu vel getað brotist út eiginlega hvenær sem er - burtséð frá þurrki og uppskerubresti. Ástæða þess að uppreisnin breiddist út í Sýrlandi, sé að fólk hafi verið búið að fá sig fullsatt af víðtækri spillingu og langvarandi kúgun og ofbeldi. Fámenn stjórn hafi árum saman stundað það að fangelsa fólk og pynta það.

Þá segir sérfræðingur Guardian í innflytjendamálum - Patrick Kingsley - að sýrlenskir flóttamenn líti ekki á sjálfa sig sem loftslagsflóttamenn. Á meðal fjölmargra viðmælenda frá Miðausturlöndum, hafi hann aldrei rekist á nokkurn mann sem hafi lýst sér sem loftslagsflóttamanni.

Aðrir vara hins vegar við því að verði ekki brugðist við loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra, muni enn fleira fólk neyðast til að flýja heimili sín á komandi árum.