Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Loftmyndir af Öskjuvatni

15.04.2012 - 19:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Öskjuvatn er ekki heitara en vant er á þessum árstíma og því er hitastigið ekki skýringin á því hvers vegna Öskjuvatn er íslaust nú ólíkt öðrum stöðuvötnum á hálendinu. Þetta sýna fyrstu niðurstöður vísindamanna.

Ómar Ragnarsson og Friðþjófur Helgason flugu yfir Víti og Öskjuvatn í gær og náðu þessum myndum.

Menn hafa furðað sig á því hvers vegna enginn ís sé á Öskjuvatni og grunur vaknaði um jarðhita. Hópur vísindamanna hefur þess vegna verið við rannsóknir. Sjálfvirkir mælar hafa ekki greint jarðhræringar þarna síðustu tvo mánuði en engu að síður þykir rétt að kanna aðstæður. Vísindamennirnir fimm, sem eru frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands, mæla hitastig vatnsins.

Þá kanna þeir hvort svipaðar breytingar hafi orðið og voru undanfari gossins í Eyjafjallajökli, það er landris. Einnig verða sótt gögn í skjálftamæla og efnasamsetning vatnsins rannsökuð. Þá er rýnt í veðurskýrslur og upplýsingar frá gervitunglum.

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum á hitamælingum er vatnið aðeins einnar gráðu heitt eða jafnkalt og venjulega. Menn hafa því ekki fundið skýringuna á því hvers vegna enginn ís er á vatninu.