Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loft mælist „mjög slæmt“ á höfuðborgarsvæðinu

01.01.2019 - 00:31
Mynd með færslu
Myndin er í fókus - tekin í austurátt frá útvarpshúsinu við Efstaleiti, laust eftir miðnætti 1.1. 2019 Mynd:
Svifryksmengun er þegar komin langt upp fyrir heilsufarsmörk víða á höfuðborgarsvæðinu og var loft skilgreint sem „mjög slæmt“ á fjórum mælistöðvumum skömmu eftir miðnætti: á Dalsmára í Kópavogi, þar sem öll mengunarmet voru slegin um síðustu áramót, á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og við Egilshöll og Grensásveg í Reykjavík. Þá telst loft slæmt við mælistöðina í Húsdýaragarðinum í Laugardal og einnig í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit.

Vel viðrar til flugeldaskota á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturhorninu almennt þetta gamlárskvöldið og hafa íbúar Reykjavíkur og nágrennis fært sér það óspart í nyt. Himininn logar og ljómar í öllum regnbogans litum, en þótt skilyrði séu hagstæð fyrir skothríðina eru þau óhagstæð fyrir loftgæði í borginni og lungu þeirra sem þar búa. Raunar er lognið svo mikið að ljósadýrð flugeldanna nær varla að skína gegnum reykskýið þar sem það er hvað þykkast, sem dregur nokkuð úr gleðinni. 

Fylgjast má með loftgæðum um land allt á vefnum loftgæði.is
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV