Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Loðnumæling langt undir væntingum

18.01.2013 - 08:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Aðeins mældust um 320 þúsund tonn af kynþroska loðnu í leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar eftir áramót. Þetta er langt undir væntingum.

Mælingar á skipinu Árna Friðrikssyni hófust djúpt norður af Langanesi og náðu til norðurs og vesturs, allt vestur fyrir 27. lengdargráðu í Grænlandssundi. Einnig var leitað úti fyrir Austfjörðum. Loðna fannst á öllu svæðinu en var víða mjög dreifð, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni. Austast og allt vestur að svæðinu norðan við Grímsey var nánast eingögnu hrygningarloðna en þaðan og vestur um var loðnan blönduð við ókynþroska loðnu. Útbreiðsla og dreifing loðnunnar reyndist vera óvenjuleg.

Í kjölfar mælinga í haust var gert ráð fyrir að hrygningarstofninn á vetrarvertíðinni yrði um 720 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnunin lagði því til í október, miðað við aflareglu, að leyft yrði að veiða 300 þúsund tonn á vertíðinni en að tillögur um heildarkvóta yrðu endurskoðaðar ef niðurstöður mælinga eftir áramót gæfu tilefni til þess. Nú mældist stofninn um 320 þúsund tonn.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni mun skip stofnunarinnar halda að nýju til loðnumælinga síðar í þessum mánuði.