Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Loðnubresturinn áfall fyrir fiskverkafólk

22.03.2019 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Loðnubresturinn er mikið áfall fyrir verkafólk hjá fyrirtækjum í uppsjávarvinnslu því verulegt tekjutap fylgir því að missa af loðnuvertíð. Fiskverkakonur í Neskaupstað segjast hafa fengið helmingi minna útborgað undanfarið en fyrir vaktavinnu á loðnuvertíð. Þá ætli margir að stytta sumarfríið og vinna í staðinn. 

Það má eiginlega tala um tvo hópa fólks þegar loðnuvertíð er annars vegar. Fastráðna heimafólkið og svo það sem kemur sérstaklega á staðinn til þess að vinna í loðnunni. Og greip í tómt að þessu sinni. 

Mikið högg fyrir starfsfólkið

„Og það er fólk sem kemur og tekur bara þessar tarnir og hvílir sig á milli. Fyrir þetta fólk er þetta mikið högg. Svo náttúrulega fasta fólkið okkar líka, þá vega náttúrulega uppgripin af vertíðinni mjög þungt hjá þessu fólki,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf.

Fólkið sækist eftir mikilli vinnu í loðnuvertíð

Eftir átta tíma vinnudag er verið að þrífa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar væri að öllu eðlilegu búin að vera mikil törn í vaktavinnu á loðnuvertíð undanfarnar vikur.  „Við höfum alltaf tekið tólf tíma vaktir í loðnunni og fólk hefur haft góðar tekjur. Það er það sem fólk sækist eftir, að taka vaktir og vinna hérna baki brotnu í ákveðinn tíma og svo rólegra á milli. Það bara var ekkert svoleiðis núna, segir Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirmarður í fiskiðjuverinu.

Segir muna helmingi á útborguðum launum

Líneik Haraldsdóttir, fiskverkakona hjá SVN, segir þetta koma illa við fólkið. “Þetta munar náttúrulega mjög miklu á launum. Það er nú talað um þrettán prósent, ég held að það sé nú meira. Eins og á útborguðum launum núna, kannski munar helming eða meira.“ Undir þetta tekur Aðalheiður Sigurjónsdóttir, samstarfskona Líneikar. „Það er væntanlega bara þetta sama framundan, karfi og grálúða. Svo bara þurfum við að hugsa hvort við getum farið í sumarfrí, já, það kemur bara í ljós, segir hún.“

Þurfa að skera niður sumarfríið

Því sumarfrí sé eitt af því sem fólk þurfi að skera niður og vinna í staðinn til að ná upp tekjum. „Mér heyrist alla vega á fólkinu hérna að það er að hugsa um að taka styttra sumarfrí. Það segist bara ekki hafa efni á að taka jafn langt sumarfrí og venjulega,“ segir Líneik. „Ég held að svona verkamaður hjá okkur tapi alveg einni og hálfri, rúmlega einni og hálfri milljón á vertíðinni. Það munar um það hjá fólki sem vinnur þessi störf,“ segir Jón Gunnar.

Frystigeymslurnar hálftómar

Og áhrifin eru alls staðar í fyrirtækinu, minni umsvif og minni vinna fyrir fólkið. Að öllu eðlilegu ættu frystigeymslur Síldarvinnslunnar að vera fullar af frosinni loðnu og skip við brygguna að lesta loðnu. En nú eru geymslurnar allar meira og minna tómar. „Við erum ekki vanir því að vera verkefnalausir og það er mikil breyting að hafa ekkert að gera. En það þarf bara að huga að viðhaldi og öðru í staðinn,“ segir Heimir Ásgeirsson, umsjónarmaður í fyrstigeymslunum.