Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Loðnubrestur „mjög þungt högg“

26.02.2019 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Síldarvinnslan
Útgerðarmenn hafa miklar áhyggjur af loðnubresti, sem væri þungt högg fyrir fyrirtæki og sveitarfélög. Framhald vöktunar verður rætt í dag. Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir ekki í boði að gefast upp. 

Síðasta leitarleiðangri Hafrannsóknastofnunar lauk um helgina og er niðurstaðan langt undir væntingum. Stofnunin leggur ekki til veiðiheimildir á þessari vertíð að óbreyttu. 

Framhaldið rætt í dag

Haldinn verður fundur í samráðshópi Hafrannsóknastofnunar og útgerðarfyrirtækja eftir hádegi. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segir að á þeim fundi verði ákveðið hvort farið verði í fleiri leitartúra. 

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, er einn þeirra sem fer á fundinn í dag. Hann segir að algjör loðnubrestur hefði gífurleg áhrif. „Þetta er bara mjög þungt högg. Það er ljóst að loðnan er mjög þýðingarmikil í þeim fyrirtækjum sem hafa verið að stóla á veiðar og vinnslu uppsjávarfiska og er í rauninni aðal tekjurnar fyrri hluta árs,“ segir hann. 

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur falið fjármálastjóra sveitarfélagsins að meta fjárhagsleg áhrif á sveitarfélagið. Í fundargerð ráðsins kemur fram að aflabrestur sé áfall fyrir mörg sveitarfélög. 

Vilja ekki gefast upp

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, lýsti áhyggjum sínum af stöðunni í Morgunblaðinu í dag en sagði jafnframt að menn væru ekki úrkula vonar um að það finnist meira af loðnu. Gunnþór tekur undir þetta og vill áframhaldandi vöktun, ekki sé í boði að gefast upp.

Rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar verða notuð í önnur verkefni á næstunni og því þyrftu útgerðir að útvega veiðiskip í leitina. „Ég trúi því að menn séu klárir í samstarf, bæði Hafró og útgerðin. Þetta kostar peninga en þetta eru líka gríðarlega miklir fjármunir í húfir. Það sem þetta kostar er bara lítið brot af þeim hagsmunum sem er í húfi. Okkur ber bara að gera það, að skoða hvort staðan sé virkilega svona slæm eins og niðurstaða þessa leiðangra bendir til,“ segir Gunnþór.