Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loðnubrestur hefur skelfileg áhrif í bænum

18.03.2019 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Áhrif þess að ekkert verður úr loðnuvertíðinni eru skelfileg fyrir bæjarfélag eins og Vopnafjörð. Þetta segir Sævar Jónsson varamaður í sjómannadeild Afls starfsgreinafélags en hann hefur verið sjómaður í tæp 50 ár. 

„Þetta er bara skelfilegt ástand eins og er. Það er náttúrulega atvinnuleysi í uppsjávarfrystihúsinu og starfsfólk hefur bara ekkert að gera,“ segir Sævar. 

Framundan sé grásleppuvinnsla en framhaldið sé óráðið eftir það. Í bræðslunni er nóg að gera eins og er því verið að vinna kolmunna, segir hann. Helsta atvinna á Vopnafirði hefur verið í kringum útgerð og fiskvinnslu þannig að það munar um heila loðnuvertíð fyrir fólkið: 

„Það missir alla vega tekjur. Ég svo sem þori ekki að segja um það hvort það missi vinnu en það tapar tekjur, alveg helling. Þá sérðu hvernig það er; engin útsvarsgjöld til sveitarfélagsins, ekkert í hafnarsjóð, eða lítið. Svoleiðis að það er ekki bjart framundan þannig, en maður vonar bara það besta.“

Óðinn Ómarsson starfsmaður hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði segir að þar sé nú verið að vinna kolmunna en á þessum árstíma hafi það verið loðnan og svo hafi kolmunninn tekið við af loðnuvertíðinni. Bræðslan finni ekki eins mikið fyrir þessu eins og frystihúsið á Fáskrúðfirði. Sömu sögu er að segja af Eskifirði.