Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Loðdýrarækt bönnuð í Noregi frá 2025

16.01.2018 - 06:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Norskir loðdýrabændur framleiða um eina milljón refa- og minkaskinna á ári hverju - ennþá. Frá og með árinu 2025 verða þeir að finna sér annað lífsviðurværi, því þá tekur gildi algjört bann við loðdýrarækt til skinnaframleiðslu í Noregi. Erna Solberg, forsætisráðherra, tilkynnti þetta um helgina, en bannið var eitt af skilyrðum Vinstri flokksins fyrir því að taka þátt í þriggja flokka stjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins.

Vinstri flokkurinn, eða Venstre, er reyndar hægra megin við miðju stjórnmálanna, en leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Loðdýrabændur í áfalli

Loðdýrabændur brugðust illa við þessum áformum stjórnarinnar. Guri Wormdahl, upplýsingafulltrúi Samtaka norskra loðdýraræktenda, segir félagsmenn hreinlega í áfalli. Í Noregi séu um 200 loðdýrabú sem fari í hvívetna að ströngustu kröfum um dýravernd og velti sem svarar til á bilinu 4,5 - 6,5 milljörðum íslenskra króna árlega. Bannið sé þungt högg fyrir efnahag framleiðendanna og samfélagsins í heild og forkastanleg ákvörðun.

„Gamaldags og grimmdarlegur iðnaður“

Þessu eru norsk dýraverndarsamtök að vonum alveg ósammála. Loðskinnsframleiðsla er að þeirra mati gamaldags og grimmdarlegur iðnaður sem meðvitaðir tískuneytendur afneiti í æ ríkari mæli, og löngu tímabært að leggja hann af. „Við fögnum þessu mjög,“ segir Siri Martinsen, formaður norsku dýraverndarsamtakanna Noah.

Loðdýrarækt hefur dregist mjög saman í Noregi síðustu ár og áratugi. Samkvæmt umfjöllun þýska tímaritsins Der Spiegel um þetta mál voru um 20.000 loðdýrabú í Noregi árið 1939, og norskir loðskinnsframleiðendur ráðandi á heimsmarkaðnum. 2013 var hlutdeild þeirra á heimsmarkaðnum hins vegar komin niður í þrjú prósent refaskinna og eitt prósent minkaskinna. Þá fer fjölgandi þeim tískurisum, sem hætta að nota raunveruleg skinn í framleiðsluna, til að mæta kröfum viðskiptavina sinna. Ítalska tískuhúsið Gucci bættist í þann stækkandi hóp í fyrra, en framleiðendur á borð við Hugo Boss, Armani, Tommy Hilfiger og Ralph Lauren hafa látið „alvöru“ pelsana eiga sig um langt skeið. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV