Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ljós norðan jökuls: Töldu annað gos hafið

31.08.2014 - 00:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Nokkrir hringdu á fréttastofuna í kvöld og létu vita af rauðum ljósum norður af Vatnajökli sem líktust öðru eldgosi. Ljósin sáust á vefmyndavélum Mílu á svæðinu í kvöld. Þar reyndust vera á ferðinni vísindamenn sem voru að huga að mælum.

Rauð og hvít ljós sáust til skiptis á vefmyndavélum sem hefur verið komið fyrir á Vatnajökli og norðan jökulsins. Margir töldu að gos væri hafið að nýju en jarðfræðingur Veðurstofunnar staðfesti að svo er ekki. Vísindamenn á þeirra vegum unnu að því í kvöld að bæta við mælum á svæðinu og safna gögnum. 

Jarðskjálftavirkni á Bárðarbungusvæðinu hefur lítið breyst síðustu tvo daga. Stærsti skjálfti kvöldsins, 3,8 að stærð, varð við suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar klukkan átta í kvöld.

Skjálftavirknin í kvikugangnum nær nú frá gígunum í Holuhrauni, þar sem gaus í fyrrinótt í norðri, og um fjóra kílómetra suður fyrir brún Dyngjujökuls. Aðeins nokkrir smáir skjálftar hafa mælst fyrir norðan gosstöðvarnar og engin merki eru um að kvikugangurinn færist í norður. Nokkrir smáir skjálftar mældust í nágrenni við Öskju. Hættustig Almannavarna og lokanir norðan Vatnajökuls eru enn í gildi.