Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ljón, rottur, útlagar og ískyggileg framtíð

Mynd með færslu
 Mynd:

Ljón, rottur, útlagar og ískyggileg framtíð

27.01.2019 - 11:51

Höfundar

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent næsta þriðjudag. Þar eru fimmtán verk í þremur flokkum tilnefnd en hér verður litið yfir tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka.

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka eru Sag­an um Skarp­héðin Dungal sem setti fram nýj­ar kenn­ing­ar um eðli al­heims­ins eft­ir Hjör­leif Hjart­ar­son og Rán Flygenring, Ljónið eft­ir Hildi Knúts­dótt­ur, Rott­urn­ar eft­ir Ragnheiði Eyjólfsdóttur, Silf­ur­lyk­ill­inn eft­ir Sigrúnu Eld­járn og Sölvasaga Daní­els­son­ar eft­ir Arn­ar Má Arn­gríms­son.

Bók fyrir foreldra og börnin þeirra

Sagan af Skarphéðni Dungal segir frá taðflugu sem býr á hrossataðshrúgu og hefur hugmyndir um að til séu einhverjar aðrar slíkar en það er ekki viðtekin skoðun í samfélagi flugnanna á hrúgunni. Hann lendir upp á kant við kerfið og er gerður útlægur sem leiðir hann í ferðalag sem kennir honum að heimurinn er jafnvel flóknari en hann sjálfur hélt. Söguna skrifar Hjörleifur Hjartarson í bundnu máli og teikningar eru eftir Rán Flygenring. Þau hafa áður unnið saman, að bókinni Fuglar, sem kom út 2017.

Mynd:  / 
Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring sögðu frá bókinni í Víðsjá 6. desember 2018.

Sagan um Skarphéðinn Dungal er með heimspekilegum undirtóni og höfðar til lesenda á afar breiðu aldurssviði. „Ég skrifaði þetta ekki fyrir börn sérstaklega,“ segir Hjörleifur Hjartarson í viðtali við Höllu Harðardóttur í Víðsjá á Rás 1. „Það er nú til eitthvað sem heitir fjölskyldubók, sem er mikið tekið í útlöndum, ég held að við getum bara kallað þetta fjölskyldubók. Bók fyrir foreldra og börnin þeirra – og svo líka hin sem eiga ekki börn.“

Sögurnar sem leynast í gömlum húsum

Ljónið er fyrsta bók í nýjum þríleik eftir Hildi Knútsdóttur. Sögusvið hennar er miðborg Reykjavíkur og segir hún frá kynnum Kríu og Elísabetar, stúlkum á menntaskólaaldri, og rannsókn þeirra á undarlegu máli stúlku sem hvarf sporlaust áratugum áður.

Hugmyndina að bókinni fékk Hildur Knútsdóttir þegar hún blaðaði í fasteignaauglýsingum. „Ég rakst á íbúð til í sölu í Skólastræti, í eldgömlu húsi sem ég komst síðar að að var með elstu húsum í Reykjavík. Mér fannst þetta svo magnað hús, með rammskökkum skorsteini, fullt af skápum og kimum, og ég hugsaði bara að hér getur eitthvað hafa gerst.“

Faraldsvísindatryllir í neðanjarðarbyrgi

Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur er vísindatryllir um hóp ungmenna sem fenginn er til að sinna verkefni við niðurníddan hálendisskála. Þar gerir eitthvað skuggalegt vart við sig og ungmennin þurfa að berjast fyrir lífi sínu og umfram allt halda í vonina.

Mynd:  / 
Hildur Knútsdóttir og Ragnheiður Eyjólfsdóttir ræddu við Jórunni Sigurðardóttur um bækurnar í Orðum um bækur í nóvember 2018.

Í bókinni vinnur Ragnheiður með sjúkdóma, farsóttir og vonina. Hún segir í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur í Orðum um bækur á Rás 1 að henni hafi lengi þótt goðsagan um Pandóru áhugaverð og hún tvinnast með ýmsum hætti við bók hennar. „Pandóra opnar boxið og plágurnar og allt þetta sem er þar inni flýgur út. Hún rétt nær að loka því áður en vonin flýgur burt. Þá er það hugmyndin sem mér finnst svo frábær að Grikkirnir töldu vonina ekki endilega af hinu góða. Það hefur aldrei verið almennilega ákveðið hvort hún hafi lokað vonina inni eða þá að hún hafi passað upp á að hún hafi ekki flogið á brott.“

Framtíðarsaga sem vekur lesendur til umhugsunar

Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn er ískyggileg framtíðarsaga sem gerist í heimi þar sem mannkyn hefur eyðilagt jörðina. Í henni er sagt frá ráðagóðum systkinum, þeim Sumarliða og Sóldísi, sem leggja af stað í ferðalag  ásamt dularfullri stelpu.

Mynd: Forlagið / Forlagið
Sigrún Eldjárn ræddi um Silfurlykilinn, og ýmislegt annað, við Óðinn Jónsson í Morgunvaktinni á Rás 1.

Silfurlykillinn gerist þegar öll sú tækni sem við treystum á í dag virkar ekki lengur segir Sigrún í samtali við Óðinn Jónsson í Morgunvaktinni á Rás 1. „Mannfólkið er búið að eyðileggja heiminn, sem við erum byrjuð að gera eins og sést á loftslagsbreytingum og ýmsu.“ Silfurlykillinn byggir á hugmynd sem hefur gerjast með henni lengi – en er svo allt í einu efst á baugi í samtímanum. 

Útlagi í leit að bandamönnum

Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson er sjálfstætt framhald bókarinnar Sölvasaga unglings, sem færði honum barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2016. Bókinni er lýst sem sögu af útlaga í leit að bandamönnum og segir frá því þegar Sölvi Daníelsson, sem er „skáld í skápnum“ eins og höfundurinn orðar það, fer í heimavistarskóla á Akureyri.

Mynd:  / 
Arnar Már Arngrímsson sagði frá Sölvasögu Daníelssonar í Morgunvaktinni á Rás 1 í desember 2018.

Sölvi er ekki dæmigerður unglingur segir Arnar Már í viðtali við Jón Þór Kristjánsson í Morgunvaktinni á Rás 1. „Hann er bókmenntamaður í skápnum. Þetta er eitt sem hefur breyst á tiltölulega skömmum tíma, það er að strákur sé ekki að hampa því að lesa og hafa áhuga á ljóðum.“ Arnar Már tekur undir það að rauður þráður í gegnum bækurnar tvær sé tilvistarkreppa ungs fólks. „Ekki veit ég hvernig mér datt það hug fyrir einhverjum sex árum að sökkva mér ofan í þetta fen. Nú er ég orðinn jafn niðurbrotinn og sextán ára gamall strákur.“

Í ljós kemur hvaða bók fær Íslensku bókmenntaverðlaunin næsta þriðjudag. Sýnt verður beint frá verðlaunaafhendingunni á RÚV klukkan 19.55.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Frá flóru Íslands til Jesú Krists