Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ljóðin í sprekinu

Mynd:  / 

Ljóðin í sprekinu

24.02.2019 - 10:37

Höfundar

„Þetta eru ekki tákn í þeim skilningi að þessi form þýði eitthvað ákveðið. Kannski er þetta meira í átt við það hvernig maður skilur tónlist – það er ekki merkingarleysa en það er ekki bókstafsmerking,“ segir Guðjón Ketilsson myndlistarmaður um verkin á sýningu sinni Teikn, sem stendur yfir í Listasafni Reykjanesbæjar um þessar mundir.

Guðjón Ketilsson sýnir ný verk í Listasafni Reykjanesbæjar, skúlptúra og veggverk, sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og lestur í víðasta skilningi.

Meðal annars hefur hann skrifað upp sköpunarsögu fyrstu Mósebókar gamla testamentisins á vegg Listasafnsins en umbreytt hinu hefðbundna latneska stafrófi sem við þekkjum söguna á með því að teikna ofan í letrið og mynda grafískt vegglistaverk, sem minnir helst á nýtt og illskiljanlegt tungumál. Það sama hefur hann gert við Passíusálma Hallgríms Péturssonar á litlum blöðum sem hanga í hinum enda salarins, og hafa einnig verið gefin út á bók í tilefni af sýningunni.

Á sýningunni í Listasafni Reykjanesbæjar eru einnig trjágreinar sem Guðjón hefur málað bláar og raðað upp á vegginn svo þær minna helst á handskrifuð ljóð rituð á óræðu stafrófi. Í sýningarskránni birtast svo þýðingar rithöfundarins Sjóns, ljóð sem byggja á þessu fundna myndletri Guðjóns.  

„Við vorum að rabba um ljóðagerð og ég var að pumpa hann hvernig maður hugsar ljóð sjónrænt eftir efnistökum. Hann stakk upp á því að hann langaði til að prófa til að þýða þessi ljóð, ég var náttúrulega himinlifandi yfir því og útkoman er alveg frábær finnst mér,“ segir Guðjón.

„Mér finnst svolítið merkilegt að vera að kljást við ryþma og ýmiskonar meðul sem ljóðskáldið fæst við, mér finnst það forvitnilegt í myndlistarlegu tilliti.“

Mynd með færslu
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Mynd með færslu
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson