Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Liverpool og Suarez gagnrýnd

Mynd með færslu
 Mynd:

Liverpool og Suarez gagnrýnd

04.01.2012 - 11:33
Enska úrvalsdeildarliðið Liverpool og úrúgvæski framherjinn Luis Suarez hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín vegna átta leikja banns sem Suarez var dæmdur í vegna kynþáttaníðs.

Liverpool tilkynnti í gær að félagið hefði ákveðið að áfrýja ekki átta leikja banninu sem knattspyrnusambandið dæmdi Suarez í og því tók bannið gildi strax í gær þegar Liverpool mætti Manchester City.  En þrátt fyrir ákvörðunina um að áfrýja ekki dómnum sendu bæði félagið og Suarez frá sér mjög harðorðar yfirlýsingar.  Í yfirlýsingu félagsins eru niðurstöður og forsendur þriggja manna nefndarinnar sem kvað upp úrskurðinn dregnar í efa og um leið sakar félagið knattspyrnusambandið um að sverta ímynd Suarezar.  Í yfir lýsingu hans er síðan enga afsökunarbeiðni að finna heldur lýsir hann enn yfir sakleysi sínu.  Viðbrögð Liverpool og Suarez eru harðlega gagnrýnd í enskum fjölmiðlum í dag og eru hvorki talin þeim til framdráttar né líkleg til þess að vinna gegn kynþáttaníð í fótboltanum.