Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Litríkt mannlíf og velsæld á gullöld Aleppó

14.10.2016 - 15:43
Mynd: Library of Congress / Library of Congress
Eitt mesta velsældarskeið í sögu sýrlensku borgarinnar Aleppó voru þau rúmlega 400 ár, sem borgin var hluti af hinu tyrkneska Ottómanveldi, frá því í byrjun sextándu aldar og til upphafs þeirrar tuttugustu. Undir stjórn Tyrkjasoldáns varð Aleppó að einni helstu verslunarborg austurlanda og þar blómstruðu bæði viðskipti og fjölskrúðugt mannlíf.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um langa og merka sögu hinnar stríðshrjáðu borgar Aleppó í Sýrlandi. Þátturinn sem hlýða má í spilaranum hér að ofan er sá seinni af tveimur, og fjallar um sögu borgarinnar á dögum Tyrkjaveldis og fram á okkar daga. Þann fyrri — sem fjallar um sögu borgarinnar frá fornöld og fram til um 1400 — má heyra hér

Mynd með færslu
 Mynd: Library of Congress
Elsti hluti Aleppóborgar um 1900.

Konstantínópel, Kaíró — og Aleppó

Aleppó lenti á yfirráðasvæði Ottóman-Tyrkja þegar þeir lögðu undir sig hið forna soldánaveldi Mamlúka í Egyptalandi árið 1517. Aleppó hafði þá mátt muna sinn fífl fegurri enda Mamlúkar lítið hirt um borgina undir það síðasta og borgarbúar mátt þola endalausir innrásir og eyðileggingu síðustu aldirnar.

En Tyrkir vildu auka veg Aleppó sem verslunarborgar. Þeir bættu innviði til muna og hvöttu kaupsýslumenn hvaðanæva að — Tyrki, Grikki, Armena, Gyðinga sem og Evrópumenn — til að setjast að í borginni og stunda viðskipti.

Það bar skjótan árangur og Aleppó varð fljótt að einni af helstu borgum Tyrkjaveldis, á eftir einungis stórborgunum Konstantínópel og Kaíró. 

Mynd með færslu
 Mynd: Library of Congress
Nýjasta og fínasta hverfi borgarinnar um aldamótin.

Úlfaldalestir og mannmergð

„Miklar úlfaldalestir koma hér á hverjum degi, frá öllum heimsins löndum: Tyrklandi, Armeníu, Egyptalandi og Indlandi,“ skrifaði þýskur læknir og ferðamaður, Leonhard Raunwolff, um heimsókn sína til Aleppó 1576. „Mannmergðin á götum bæjarins er svo mikil að það er erfitt að komast leiðar sinnar.“

Þessi gullöld borgarinnar átti þó ekki eftir að endast að eilífu. Efnahagi borgarinnar fór að hraka á átjándu öld, þegar fall Safavídaveldisins persneska hafði djúpstæð áhrif á verslun með silki og annan varning á svæðinu. Opnun Súez-skurðarins var aleppískum kaupmönnum svo annað reiðarslag.

Samhliða því að það harðnaði í ári fóru að myndast sprungur í hið fjölskrúðuga samfélag Aleppóborgar, þar sem margar ólíkar þjóðir og trúarhópar höfðu hingað til búið saman að mestu í sátt og samlyndi. Og loks var friðurinn endanlega úti.

Mynd með færslu
 Mynd: Library of Congress
Borgarvirkið forna.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. Myndirnar tóku bandarískir ljósmyndirnar, búsettir í Jerúsalem, á ferð um Aleppó um aldamótin 1900. Fleiri myndir þeirra af borginni má skoða hér.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.