Nína Richter skrifar:
Ég var búin að þekkja kærastann minn í nokkrar vikur þegar ég missti þetta út úr mér í samtali um sameiginlegan kunningja: „Fyndið að bíllinn hans sé í nákvæmlega sama lit og hann sjálfur.“ Kærastinn leit á mig ráðvilltur. Ég horfði á hann til baka vammlaus og stóreyg eins og belja að vori. „Já, ég meina, hann er grænn og bíllinn hans er það líka, í nákvæmlega sama lit.“ Kærastinn hváði. „Er hann grænn?“ „Já, augljóslega,“ svaraði ég. „Jólagrænn.“ Og þar með var friðurinn úti. Í kjölfarið fylgdu yfirheyrslur. Hann eyddi heilu kvöldi í að spyrja mig út í liti og tengingar. „Er ég með lit?“ spurði hann. Ég hló að honum, auðvitað var hann með lit, augljóslega heiðgulur með grænum jöðrum. Það er fallegra en það hljómar.
Réttur litur á réttum stað
Ég er synþeti [e. synesthete] með samskynjun [e. synesthesia], og sé meðal annars fólk í litum. Segja má að samskynjunin mín sé öflugust á því sviði. Þá er ekki þar með sagt að ég sjái fólk sveipað litaðri áru, langt í frá. Það má frekar líkja þessu við að líkt og okkur finnast börn vera saklausar verur, þá finnst mér föstudagar vera grænir. Okkur finnst hringur hafa lögun hrings, en mér finnst ég sjálf vera blá. Það er einhver djúp og sönn sannleikstilfinning gagnvart litnum, og þó að ég sé ekki að tala um nein rofin raunveruleikatengsl þar sem bókstafir skipta litum á pappírnum fyrir framan mig, þá eru þeir í réttum lit ef ég loka augunum og er beðin að sjá fyrir mér bókstafinn. Þannig getur það stuðað mig lítið eitt að sjá hluti flokkaða í vitlausa litahópa í uppsetningu á stundartöflum og öðru því um líku. Það er helst í þannig tilfellum sem ég finn fyrir þessu og ákveð oftast nær að leiða það hjá mér, eins og stafsetningarvillu sem ég sé og veit af og tek meðvitaða ákvörðun um að láta standa. Á sama hátt fæ ég mikla ánægju út úr því þegar litir eru á réttum stað, í réttri röð og í kringum rétta fólkið.
Synþetarnir Aphex Twin og Phil Collins
Á Vísindavefnum er samskynjun skilgreind á þann veg að ef áreiti á eitt skynfæri leiði til skynjunar sem einkennir annað skynfæri sé um samskynjun að ræða. Samtök sálfræðinga í Bandaríkjunum áætla að einn af hverjum tvöþúsund falli undir greiningarviðmið samskynjunar. Samskynjun getur verið af ýmsum toga og verið allt frá því að finnast tölustarfir eiga sinn sérkennislit, yfir í snertitengda samskynjun þar sem sjónrænt áreiti framkallar snertitilfinningu, sem getur háð viðkomandi mikið. Algeng form samskynjunar eru fyrrnefnd tilfelli sem tengjast litum, bókstöfum og tölustöfum en einnig þekkjast mörg dæmi um að fólk upplifir tónlist í litum, þannig að heilinn fari að túlka tónrænt áreiti sem sjónrænt. Fræg dæmi um slíkt er tónlistarfólk á borð við Aphex Twin, Phil Collins og Pharrell Williams, en sá síðastnefndi gaf einmitt út plötu árið 2008 sem ber heitið Seeing Sounds.