Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Litrík gata á Seyðisfirði slær í gegn

11.09.2017 - 10:04
Lítil prýði var orðin að ónýtum og mölbrotnum gangstéttarhellum í miðbæ Seyðisfjarðar en á einni kvöldstund tókst heimamönnum að breyta vandamáli í tækifæri. Nú er gatan orðin aðdráttarafl fyrir myndaóða ferðamenn og viðskiptin blómstra.

Það er eitthvað við Norðurgötu á Seyðisfirði sem veldur því að flestir sem horfa inn götuna finna hjá sér þörf fyrir að taka ljósmynd. Fyrir gleðigönguna í fyrra var ákveðið að hressa aðeins upp á götuna og mála hellurnar í öllum regnbogans litum. „Þessi gata hefur verið til smá vandræða undanfarin ár. Hellurnar brotna undan þunga fólks sem labbar hérna og þegar það sást að það yrði ekki gert neitt í þessu í bráð þá bara ákváðu Seyðfirðingar að taka málin í sínar hendur og mála hana en samt bara sem svona einhvers konar skammtímalausn. En hún hefur slegið svona rækilega í gegn. Við erum að fá ferðamenn sem eru í brúðarkjólum hér við kirkjuna,“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, atvinnu-, menningar, og íþróttamálafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Ekki spillir að hafa Bláu kirkjuna við enda götunnar og svo hafa húsin þar fengið yfirhalningu. Nú dragast ferðamennirnir að regnbogalitaðri götunni og verslanir og veitingastaðir njóta góðs af. „Nánast allir túristar sem stoppa hérna koma og taka sömu myndirnar af þeim liggjandi í götunni. Svo koma þeir inn að fá sér bjór eftir á og oft kvöldmat. Sem er bara virkilega gott fyrir okkur,“ segir Stefán Fannar Jónsson, rekstrarstjóri Kaffi Láru á Seyðisfirði.

Dagný Erla segir að fólk komi gagngert til Seyðisfjarðar til að láta taka af sér mynd við götuna. „Ég held ég geti alveg fullyrt að þetta er einn mest myndaði staður á Austurlandi í dag og Seyðfirðingar eru bara svo stolltir og glaðir með þessa götu.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV