Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Litlir fuglar sem segja stóra sögu

Mynd: Anna Júlía Friðbjörnsdóttir / Anna Júlía Friðbjörnsdóttir

Litlir fuglar sem segja stóra sögu

13.09.2017 - 08:07

Höfundar

Svokallaðir söngvarar eru heillandi fuglar, ekki bara vegna þess að þeir eru smáir og syngja vel, heldur vegna þess að þeir flækjast hingað til lands og verða hér strandaglópar.

Söngur þeirra, næturhimininn, loftþrýsingur og rómantík nítjándu aldar eru allt meðal yrkisefna Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur myndlistarkonu sem nú sýnir í Hafnarborg í Hafnarfirði sýningu sem hún kallar Erindi.

Fallegir flakkarar

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir segir að 23 gerðir svokallaðra söngvara hafi sést hér á landi. Í ljósmyndum af þeim hefur hún „snúið við“ litnum, þannig að fuglarnir, sem annars eru í brúnum tónum, virka bláir.

„Þessi flokkur fugla er dáldið sérstakur á íslensku. Þetta eru strangt til tekið fuglar af sylviidae-ætt. Á ensku eru þeir kenndir við gamla heiminn, til aðgreiningar frá frændum sínum í nýja heiminum. Þetta eru fallegir litlir fuglar sem flækjast aðallega um Evrópu, austur til Asíu og jafnvel til Afríku,“ segir Anna Júlía í viðtali við Víðsjá.

Fjúka yfir hafið

En söngvarana ber síðan stundum af leið og þá kemur fyrir að þeir berist hingað til Íslands með vindum að austan. „Þeir algengustu, til dæmis Hettusöngvarinn, hafa sést hérna margoft en þeir sjaldgæfustu hafa mjög sjaldan sést og hafa þá borist hingað langt austan úr Asíu. Þeir koma hingað með austanvindi og fjúka í rauninni hingað. Þeir eru agnarsmáir og að meðaltali 13 cm.“ Talið er að þeir söngvarar sem hingað nái deyi hér á landi, annað hefur að minnsta kosti ekki verið sannað.

Mynd með færslu
 Mynd: Vigfús Birgisson - Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
Hinir 23 söngvarar í meðförum Önnu Júlíu.

Það að rata

Á sýningunni er Önnu Júlíu hugleikið hvernig bæði fuglar og menn rata í heiminum. Eitt verkið hefur með næturhiminn að gera sem bæði nýtist fuglum og mönnum til þess að rata ef þeir þurfa að yfirgefa heimkynni sín í snarhasti.

„Koma söngvaranna og aukin tíðni þeirra hér sýnir fram á ákveðnar breytingar í vistkerfinu. Þær breytingar auka líkur á að þeir nái að setjast hér að. Þetta tengist hlýnun jarðar og aukið skóglendi hérlendis gæti líka stutt við það. Austanáttin sem ber þá hingar vekur líka upp hugrenningatengsl við það fólk sem hingað kemur á flótta frá eigin heimkynnum og einnig við þau margbreytilegu áhrif sem vestræn menning hefur orðið fyrir frá austrænum straumum, til dæmis í menningu og listum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vigfús Birgisson - Anna Júlía Friðbjörnsdóttir
Blái liturinn er áberandi á sýningunni.

Söngur fugla og manna

Rómantíkin, ljóðasöngur úr smiðju norður-evrópskra skálda og tónskálda og hugmyndir manna um seiðmagn næturinnar eru líka þemu sem Anna Júlía vinnur með á sýningunni. Yfir hömum nokkurra fugla, söngvara, skín blátt víbrandi xenon-ljós sem er í ætt við neon-ljós, nema hvað að það virkar óstöðugra og tengist orðinu xenophobia, sem táknar andúð, hatur eða hræðslu við útlendinga.

Það eru fjölmargir þræðir í þessari forvitnilegu sýningu en rætt var við Önnu Júlíu í Víðsjá. Viðtalið sem og fugla- og mannasöng má heyra hér fyrir ofan, en einnig má lesa texta sem fylgir sýningunni hér.