Litlar líkur á árás hér

04.06.2017 - 13:08
Mynd: Skjáskot / RÚV
Það eru sem betur fer litlar líkur á því að árás eins og þær sem gerðar hafa verið í Bretlandi undanfarið verði gerðar hér, segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Það breyti því þó ekki að menn verði að sýna mikla ávekni og gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir slíkt.

Borgaraþjónusta utanríkisþjónustunnar var virkjuð vegna árásarinnar. „Þær fregnir sem við höfum er að enginn Íslendingur hafi orðið fyrir skaða,“ sagði Guðlaugur Þór í aukafréttatíma RÚV í sjónvarpi í hádeginu vegna hryðjuverkaárásanna í Bretlandi.

„Við höfum haft samband við ríkislögreglustjóra til að kanna hver staðan er þar. Það er sú stofnun sem metur hryðjuverkaógnina. Sem betur fer eru litlar líkur á því að þetta geti gerst hér. Það breytir því ekki að við þurfum að sýna mikla árvekni,“ sagði Guðlaugur Þór. „Hér hafa ekki Íslendingar farið og tekið þátt í eða gengið í þessi öfgasamtök eins og hefur gerst í þessum löndum sem við berum okkur saman við. Við vitum sömuleiðis ekki af slíkum öfgahópum hér heima. En við eigum alltaf, og það er það sem við gerum og munum gera, sýna fyllstu árvekni og gera hvað við getum til að koma í veg fyrir að svona geti gerst hér.“

Guðlaugur Þór vandaði árásarmönnunum ekki kveðjurnar. „Þetta er auðvitað skelfilegt. Við skulum hafa í huga að þetta eru hugleysingjar, raggeitur, sem ráðast á saklaust fólk með vopnum. Það er augljóst að þeir vilja fá úlfúð. Þeir vilja ekki að við sýnum yfirvegun, þeir vilja ekki að við njótum frelsis. Þeir eru að ráðast á ungt fólk sem er að skemmta sér og njóta þess frelsis sem við höfum. Það er afskaplega mikilvægt að við sýnum fulla samstöðu um að vernda þessi gildi sem gera okkar þjóðfélög svona góð.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi