Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Litla Hraun fær ekki nýja öryggisgirðingu

26.12.2012 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný öryggisgirðing verður ekki reist við fangelsið á Litla Hrauni í nánstu framtíð segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. Ný girðing er of kostnaðarsöm. Peningum verður þó veitt til að bæta öryggismál í fangelsinu á næsta ári.

Brotalöm virðist vera á útbúnaði fangelsisins á Litla Hrauni. Að minnsta kosti gat strokufanginn Matthías Máni Erlingsson komist undir öryggisgirðingu óséður fyrr í desember. Lögreglan hefur sagt að strok fangans sýni að nauðsynlegt sé að endurskoða öryggismál í fangelsinu. 

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra sem hefur þennan málaflokk á sínu forræði, segir lengi hafa verið rætt um að útbúnaður fangelsisins sé ófullnægjandi. Nú sé reynt að bæta úr því. 50 milljónum hafi verið veitt í öryggismál fangelsisins í ár og sömu upphæð verður veitt á næsta ári.  Hann telur að sú upphæð nægi hins vegar ekki til að öryggi sé tryggt en bendir á að ef ætti að ganga lengra, eins og til dæmis að skipta út girðingunni, myndi slíkt kosta á bilinu 170 til 200 milljónir króna.

Ögmundur segir að hafa verði í huga að undirbúningur sé hafinn að byggingu nýs fangelsis sem gerbreyti öryggismálum þegar það verði komið í gagnið. 
Til viðbótar við vanbúið fangelsi hafa lögreglumenn vakið athygli á ónógum varnarbúnaði sínum eftir að fanginn strauk. Þeir beri aðeins piparúða og kylfur og þá eigi embætti lögreglunnar á Selfossi ekkert stungu- og skothelt vesti.  „Hvað varðar öryggisbúnað lögreglunnar, skotvesti og annað, þá held ég að ekki nokkur maður deili um það að þau þurfa að vera í eins góðu lagi og nokkur kostur er. Nú erum við minnt á að þarna eru brotalamir og að við þurfum að laga það á komandi ári.“