Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Litir eru sálrænt meðal

Mynd: RÚV / RÚV

Litir eru sálrænt meðal

23.08.2017 - 16:35

Höfundar

Klifurjurt úr gervihári í öllum dýrðarinnar litum yfirtók Listasafn Íslands í byrjun sumars þegar Hrafnhildur Arnardóttir, eða Shoplifter, opnaði þar sýninguna  Taugafold VII, eða Nervescape VII. Hrafnhildur hefur sýnt Taugarfoldarröðina víða um heim á undanförnum misserum en þar reynir hún að endurskapa landslag hugans.

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til hárgreiðslu fyrir hús,“ segir Hrafnhildur um Taugafoldarröðina, sem samanstanda af gríðarstórum skúlptúrum og hún hefur unnið með undanfarin 15 ár. „Þó þetta sé númer 7 í röðinni og þetta sé sería þá breytast verkin mikið, ég er alltaf að setja upp nýtt verk í hvert sinn, vegna þess að ég leyfi hverju rými að ákveða hvernig verkið á að vera.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Titill raðarinnar kviknaði þegar Hrafnhildur setti upp fyrstu sýninguna í New York. Hann vísar annars vegar í taugakerfið og hins vegar foldina, eða jörð. Enski titillinn, Nervescape tengist líka orðinu escape og vísar í einskonar raunveruleikaflótta á vit litanna.

„Þegar við vorum að ákveða hvernig verkið átti að verða var ég alltaf að hugsa um taugaendana í heilanum sem boðleiðir; allt litríkið sem mögulega er þarna inni og maður leiðir aldrei hugann að. Seinna meir komst ég að því að með nýjustu tækni í því að skanna heilann var hægt að sýna boðleiðir taugakerfisins og þær eru ofboðslega líkar því sem ég er að gera. Þannig að það kom í ljós að ég er bara mikil raunsæismanneskja, þetta er ekki eins mikil ímyndun eins og ég hélt fyrst.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hrafnhildur trúir að litir séu sálrænt meðal, hjálpi til gegn depurð og skammdegisþunglyndi. „Það er hægt að nálgast myndlist á allan hátt. En það að hjálpa fólki að verða fyrir jákvæðum hughrifum, breyta hugarástandi og hjálpa fólki að finna hamingju, það er mikil frumþörf og frumkraftur sem mér finnst vera mjög jákvæður tilgangur myndlistar.“

Rætt var við Hrafnhildi í Menningunni. Hægt er að horfa á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Myndlist

Á sitt hvorum vængnum

Innlent

Shoplifter fær virt verðlaun