Lítill samningsvilji hjá Liverpool

Mynd með færslu
 Mynd:

Lítill samningsvilji hjá Liverpool

06.07.2012 - 16:46
Enska knattspyrnufélagið Liverpool bauð Gylfa Sigurðssyni 30.000 sterlingspund í vikulaun samkvæmt heimildum RÚV. Það jafngildir tæpum 6 milljónum króna og hefði gert hann að einum allra launalægsta leikmanni liðsins.

Heimildir RÚV herma að samningsvilji Liverpool hafi verið lítill og því hafi Gylfi ákveðið að taka tilboði frá Tottenham þar sem hann fær 50.000 sterlingspund í laun á viku, tæpar 10 milljónir króna.

Gylfi tók aldrei launatilboði Swansea eins og haldið er fram í erlendum fjölmiðlum eftir að Hoffenheim samþykkti kauptilboð Swansea í leikmanninn. Gylfi vissi af yfirvofandi brottför knattspyrnustjórans Brendan Rodgers til Liverpool og hafði því ekki í hyggju að semja við Swansea.

Gylfi gerði samkomulag við Tottenham um að tjá sig ekki opinberlega um samningaviðræður hans við Liverpool. Athygli vakti í gær þegar Rodgers, nýráðinn knattspyrnustjóri Liverpool gaf í skyn í viðtali á heimasíðu Liverpool að launin hafi skipt Gylfa meira máli en að spila fótbolta.

Liverpool greiðir fjórðu hæstu leikmannalaunin af öllum liðum í ensku úrvalsdeildinni samkvæmt nýjustu fótboltaskýrslu Deloitte eða 135 milljónir sterlingspunda á ári.

Chelsea greiðir mest, £191 milljón á ári, Man City greiðir næst hæstu launin, £174m, þá kemur Man Utd með £153m, Liverpool-£135m og Arsenal-£124m.

RÚV tók saman upplýsingar um laun 14 leikmanna í hópi Liverpool. Samanburður leiðir í ljós að Liverpool var aðeins reiðubúið að greiða Gylfa helming þeirra launa sem leikmenn eins og Charlie Adam og Jordan Henderson þiggja hjá félaginu.

Það skal tekið fram að eftirfarandi vikulaunatölur leikmanna Liverpool eru byggðar á heimildum enskra fjölmiðla með fyrirvara um smávægileg skekkjumörk.

Steven Gerrard £120.000
Glen Johnson £120.000
Craig Bellamy £90,000
Daniel Agger £90.000
Joe cole £90.000
Maxi Rodríguez £90.000
Jamie Carragher £80.000
Luis Suárez £80.000
Martin Skrtel £80.000
Stewart Downing £75.000
Andy Carroll £65.000
José Enrique £65.000
Jordan Henderson £60.000
Charlie Adam £60.000

FC Bayern München lýsti yfir áhuga á Gylfa en það fór aldrei lengra eftir að umboðsmaður hans tjáði forráðamönnum þýska félagsins að Gylfi vildi ekki leika áfram í Þýskalandi.

Önnur félög sem lýstu yfir áhuga á Gylfa voru Aston Villa, Stoke, Southampton, Reading, West Ham, Newcastle og QPR.

Gylfi var einnig orðaður við Man Utd og Arsenal en þau félög báru aldrei víurnar í hann.