Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lítil sem engin viðbót úrræða síðan 2010

Mynd með færslu
Jón Snædal, yfirlæknir öldunarlækningadeildar Landspítala. Mynd: Rúv
Mikilli uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði og Kópavogi undanfarin ár hefur ekki fylgt fjölgun á rýmum í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun. Þrjátíu manns eru nú á biðlista í Hafnarfirði.

Jón Snædal, yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Landspítala, hefur fylgst náið með þróun þessara mála síðustu áratugi. Hann segir að frá árinu 1995 til 2010 hafi uppbygging á dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun verið í góðu horfi. Síðan þá hafi lítið sem ekkert af úrræðum bæst við og biðlistar lengst.

„Þetta á einkum við um Kópavog og Hafnarfjörð, sveitarfélög sem hafa byggt mikið af húsnæði fyrir aldraða. Þar sem þetta er einkenni, eða sjúkdómur, sem einkum er meðal aldraðra þá hefur þetta orðið til þess að þetta er orðinn miklu meiri fjöldi með þessi vandamál heldur en var bara fyrir áratug síðan,“ segir Jón.

Þá bendir Jón á að Garðabær sé orðinn það stórt sveitarfélag að þar ættu að vera úrræði í boði. Garðbæingum með heilabilun sé vísað til Hafnarfjarðar. Jón segir brýnt að hafa í huga að slík dagþjálfun sé fyrst og fremst úrræði fyrir fólkið með sjúkdóminn. Hún bæti virkni þeirra sem sé afar mikilvægt. Þetta er fyrst og fremst sett upp fyrir sjúklingana. „Þetta er þjónusta vegna sjúkdóms sem felur í sér breytingar á vitrænni getu og þessar breytingar geta verið meiri eða minni. Síðan er það auðvitað svo að fyrir aðstandendur getur þetta auðvitað verið gott úrræði því að þeir eru oft í þeirri stöðu að þurfa að taka meira á sig en áður. Það er einnig afar misjafnt allt frá því að vera tiltölulega lítið yfir í það að vera mjög mikið.“

Um 200 manns bíða eftir dagþjálfun á höfuðborgarsvæðinu, sagði Árni Sverrisson, formaður Alzheimersamtakanna í viðtali við fréttastofu í gær.