Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lítil eftirspurn eftir Trumpisma og illindum

10.03.2018 - 12:23
Flokksþing Framsóknarflokksins 2018
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kjósendur báðu um pólitískan frið og stöðugleika og að því vinnur meirihlutinn á Alþingi, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í ávarpi sínu á flokksþingi í morgun. Hann sagði litla eftirspurn eftir popúlistískum tilburðum að fyrirmynd Trumpara austan hafs og vestan og enga eftirspurn eftir illindum vinstristjórnar 2009 til 2013.

Frá og með mánudeginum verður sama fargjald í Herjólfi, hvort sem siglt er í Þorlákshöfn eða Landeyjahöfn,“ sagði Sigurður Ingi. „Við ætlum einnig að gera innanlandsflugið að raunhæfari kosti fyrir íbúa í dreifðum byggðum. Sum okkar eru háð því að samgöngur á sjó séu skilvirkar. Ég hef lengi barist fyrir því að íbúar Vestmannaeyja búi við góðar samgöngur. Þjónustuna þarf að bæta og kostnaðinn að lækka, sérstaklega fyrir fjölskyldur, tala nú ekki um ef Herjólfur ákveður að sigla í Þorlákshöfn en ekki Landeyjarhöfn og þá hækkar reikningurinn fjórfalt. Þess vegna er gaman að nota þetta tækifæri til að segja frá því að frá og með mánudeginum verður sama fargjald þótt siglt sé í Þorlákshöfn. Þetta er byggðastefna í verki.“

Sigurður Ingi gerði ferðaþjónustu einnig að umræðuefni. „Ferðaþjónustan er komin á ágætis skrið. Það ætlun ríkisstjórnarinnar að taka upp komugjöld til að mæta auknu álagi. Það er einnig stefnan og ætlunin að gistináttagjaldið færist alfarið yfir til sveitarfélaganna.“

Fólk vildi Framsókn til valda

„Skoðanakannanir í nóvember 2017 sýndu að 73 prósent vildu fá Framsókn í ríkisstjórn. Já, landsmenn vildu helst af öllu fá okkar flokk til að stýra landinu. Það er heilbrigðisvottur um heiðarlegan flokk, skynsamlega stefnu og öflugt fólk,“ sagði Sigurður Ingi og uppskar klapp. Hann sagði að traust væri ekki gefið heldur réðist af verkum. „Við erum komin aftur.“

Sigurður Ingi sagði Framsóknarflokkinn hafa leitt saman ólíka aðila frá hægri og vinstri í stjórn. „Það er okkar leið. Það er leið Framsóknar. Ríkisstjórnin var mynduð til að ná breiðri sátt. Það tókst. Allt að 80 prósent landsmanna studdi stjórnina í upphafi. Framsóknarflokkurinn dró vagninn, sætti sjónarmið, horfði fram á veginn. Um sögulegan atburð er að ræða,“ sagði Sigurður Ingi. Hann sagði suma flokka hafa fallið í þá gryfju að útiloka einstaka flokka. Í hans augum væri skyldan að nýta tækifærin til að byggja upp, enda væru verkefnin fram undan mörk. Hann sagði að 90 prósent af 200 verkefnum í stjórnarsáttmála væru komin í eitthvert ferli.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Samkeppnishæf við útlönd

Sigurður Ingi sagði Framsóknarmenn gera sitt til að byggja upp gott og sanngjarnt samfélag. „Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur haft framtíðarsýn fyrir landið allt, og hefur haft í hundrað ár.“ Hann sagði ríkuleg tækifæri felast í því að landið væri allt í byggð. Landsmenn þyrftu að hafa hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. „Við eigum að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir.“ Hann sagði Framsóknarflokkinn ætla að efla hvata til að ungt og menntað fólk settist að á landsbyggðinni. Hann sagðist ætla að gera Ísland samkeppnishæft við önnur ríki um unga fólkið þegar kæmi að því að það veldi sér búsetu.

Finnum gleðina og taktinn

Sveitarstjórnarkosningarnar í vor urðu Sigurði Inga að umræðuefni. Hann sagði að sigur í kosningum ynnist með samstöðu og vinnu. „Finnum gleðina, finnum taktinn, finnum samheldnina frá í lok október og vinnum aftur kosningarnar í vor.“

Stöðugleiki og friður

Að viðhalda stöðugleika krefst heiðarlegs samtals við marga, sagði Sigurður Ingi. „Það er enginn að tala um að allir eigi alltaf að vera sammála.“ Hann sagði fullkomlega eðlilegt að menn tækjust á en efaðist um að hinn almenni kjósandi biðji um uppþot á Alþingi. „Kjósendur báðu um pólitískan stöðugleika og frið til að byggja upp samfélagið. Að því vinnur meirihlutinn. Það er lítil eftirspurn eftir popúlistískum tilburðum að fyrirmynd Trumpara austan eða vestan Atlantsála og það er engin eftirspurn eftir illindum vinstristjórnarinnar 2009 til 2013.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV