Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Lítið eldgos varð undir Vatnajökli

28.08.2014 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Lítið eldgos undir Vatnajökli, sem nú er lokið, olli sigdældunum suðaustur af Bárðarbungu sem sáust í fyrsta sinn í gær. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðiprófessor. Ísinn sem bráðnaði í gosinu rann líklegast í Grímsvötn segir hann.

Magnús Tumi flaug ásamt öðrum vísindamönnum með TF-SIF í gærkvöld þegar sigdældanna varð vart og svo aftur í morgun. Sigdældirnar höfðu ekki breyst á þessum tíma. Þær eru eru þrjár og eru hringlaga og samtals fimm kílómetrar. Magnús Tumi telur að kvikan sem olli gosinu þarna hafi svo leitað í bergganginn sem nú nær inn á sprungusvæði Öskju. 

"Þarna hefur væntanlega orðið smá gos. Þarna hefur kvikan sennilega leitað í þessa átt í stutta stund en síðan hefur gangurinn tekið völdinn og þetta hætt mjög snögglega eða fjarað út býsna hratt. En hvað varð um vatnið? Það gæti hafa farið í Grímsvötn. Við horfðum á Grímsvötn og skoðuðum þau og það er nú ekkert óvanalegt að sjá þar. Þetta er ekki meira vatn en svo að Grímsvötn bara svona rísa aðeins og það verður ekki mikið vart við það. En ef það hefði runnið eftir rásum inn í vatnasvið Jökulsár á Fjöllum þá ætti það nú verið komið fram núna. Og þetta er þó það mikið vatn í heildina að það hefði ekki farið fram hjá vatnamælum Veðurstofunnar á Upptyppingum og víðar."