Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lítið eitt sjatnað í vatninu sem lokar vegi

06.08.2018 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd: JBK - RÚV
Óljóst er hvenær unnt verður að opna þjóðveg eitt um Eldhraun en hann er lokaður vegna vatns úr Skaftárhlaupi sem flæðir yfir hann á hálfs kílómetra kafla. Vegagerðin vinnur að því að lagfæra vegöxl sem skemmst hefur vegna vatnsflaumsins. Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal, segir að svo virðist sem lítið eitt hafi sjatnað í lóninu sem myndast hefur norðan megin vegarins. Engu að síður sé þar enn stærðarinnar stöðuvatn sem Skaftárhlaup hefur myndað.

 

Ágúst Freyr segir að bíða verði átekta og sjá hvort ekki fari að draga það mikið úr flóðinu að unnt verði að opna þjóðveg eitt að nýju. 

Umferðinni er beint um Meðallandsveg sem liggur frá Klaustri, suður fyrir Eldhraun og kemur aftur upp á þjóðveg eitt skammt austan Kúðafljóts. Viðar Björgvinsson, bóndi á Grund í Meðallandi, segir að vegurinn sem umferðinni er nú beint á sé slæmur og það taki hátt í klukkutíma að aka hann. Þetta sé ekki fólksbílafær leið. Djúpar holur séu í veginum og háir hryggir sem fólksbílar reki kviðinn niður í. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV