Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Listin og októberbyltingin

Mynd: Wikipedia Commons / Wikipedia Commons

Listin og októberbyltingin

07.11.2017 - 16:10

Höfundar

Í dag, 7. nóvember, eru hundrað ár liðin frá októberbyltingunni í Rússlandi. Afmælið miðast við árásina á Vetrarhöllina í Petrograd, núverandi Sankti Pétursborg. Byltingin hafði víðtæk áhrif á þjóðlíf og listir í þessu risastóra landi.

Rússneski kommúnistaleiðtoginn Vladimir Ilyich Ulyanov, sem er betur þekktur í mannkynssögunni sem Lenín sagði eftirfarandi í frægri ræðu sem hann hélt árið 1919:  

Hvert er sovéska valdið? Hver er kjarni þessa nýja valds sem fólk í flestum löndum vill ekki skilja eða getur ekki skilið? Eðli þessa valds sem dregur að sér fleiri og fleiri verkamenn í öllum löndum er sem hér segir: Áður fyrr var landinu, á einn eða annan hátt, stjórnað af þeim ríku eða kapítalistunum. En nú, í fyrsta sinn, er landinu stjórnað af þeim stéttum og það sem meira er hinum breiða fjölda þeirra stétta sem áður voru undirokaðar af kapítalismanum. Jafnvel í frjálsustu lýðræðissamfélögum er það svo að svo lengi sem auðmagnið ræður ríkjum og land verður í einkaeigu, munu stjórnvöld alltaf vera í höndum lítils minnihluta, af hverjum 9/10 hlutar eru kapítalistar eða ríkir menn.

Og svo vatt ræðunni áfram og mannkynssögunni. Það er skrýtið að lesa þetta núna þegar Rússland er í greipum Putins og klíku hans og sýnt er fram á að á fáum stöðum í veröldinni er misskipting auðs jafn mikil og í þessu risavaxna landi, sem jafnframt er gríðarlega ríkt af náttúrulegum gæðum. Í millitíðinni hefur þetta stóra land farið marga hringi og með skelfilegum afleiðingum, eins og allir vita.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia Commons
Þegar Lenín snéri aftur úr útlegð blés hann mörgum landa sínum anda í brjóst, meðal annars listamönnum.

Langt tímabil

Þó talað sé um að byltingin sé hundrað ára í dag var byltingartímabilið samt lengra. Árin á undan höfðu verkföll og uppskerubrestur lamað rússneskt samfélag. Á meðan geisaði fyrri heimsstyrjöldin og svo höfum við til dæmis byltinguna árið 1905 og formlegt valdaafsal keisarans Nikulásar fyrr á árinu 1917.

Afmælið nú miðast við árásina á Vetrarhöllina í Petrograd, núverandi Sankti Pétursborg. Þessi risastóra höll hafði verið opinbert aðsetur rússneskra einvalda allt frá 1732 en þegar hér var komið sögu var hún aðsetur Alexanders Kerensky sem leiddi bráðabirgðastjórn sem setið hafði við völd frá því að keisarinn afsalaði sér völdum um vorið.

Mikil áhrif á listamenn

En nýr veruleiki og nýtt upphaf bolsévismans sem Lenín fór fyrir hafði sín áhrif í öllu þjóðlífinu og þar voru listir og menning ekki í samfélagsgerðinni. Listmenntun, framleiðsla, fjárhagsstuðningur við listsköpun, dreifing og viðtökur, allt tók þetta breytingum á þessum viðsjárverðu tímum. Heitar umræður blossuðu upp meðal listamanna og menntamanna um hvaða hlutverki listin ætti að gegna í framtíðarríki verkamannanna.

Listir höfðu samt líka lagt til byltingarinnar árin á undan. Raunsæ miðlun í listum á fátæktinni í sveitum landsins kynnti undir kröfur um nýja hugsun í stjórnmálum og framúrstefnumenn í listum vildu slíta sín verk frá hefðinni og skapa nýja list fyrir nýja tíma. Sem dæmi má nefna málarann Kazimir Malevich sem leit svo á að öll eftiröpun listarinnar á raunveruleikanum væri gengin sér til húðar og að byltingarkennt uppbrot abstraktlistarinnar væri það eina sem rímaði við samtímann. Tveimur árum fyrir byltinguna var Malevich búinn að strípa allt í burtu í verkum sínum og málaði sín frægu ferningslaga hvítu og svörtu málverk. Engu var ofaukið.

Hvítt á hvítu eftir Malevich. Myndin er nú í nútímalistasafninu í New York.

Mismikill stuðningur

Það var misjafnt milli listamanna hve mjög þeir studdu málstað Leníns og bolsévikanna. Annar þekktur listmálari frá þessum tíma Wassily Kandinsky tók ekki undir boðskap dagsins að öðru leyti en því að hann fagnaði listrænu frelsi sem fylgdi hinum nýju stjórnvöldum á fyrstu árum nýs þjóðskipulags, en það frelsi var síðar dregið til baka og stjórnvöld hófu að segja fyrir um hvað væri rétt og rangt í listum, eins og algengt er í alræðisríkjum en hendir svo sem víðar.

En skömmu eftir byltingu var bjartsýni á mikilvægt hlutverk listanna í samhengi byltingarinnar mikil. Þegar framsýnir listamenn komu saman árið 1919 undir merkjum KOMFUT (sem var bræðingur á kommúnisma og fútúrisma) voru fyrstu orð samþykktrar yfirlýsingar svohljóðandi:

Kommúnistískt stjórnarfar krefst kommúnískrar meðvitundar. Allar hliðar lífs, siðferðis, heimspeki og listar þarf að endurskapa á grunngildum kommúnismans. Án þessa er byltingin ekki möguleg.

Fyrir þá fjölmörgu listamenn sem studdu við framgang byltingarinnar var það ekki síst skáldið Vladimir Mayakovsky sem lagði línurnar. Í Tilskipun nr. 1 um lýðræðisvæðingu listanna (girðingabókmenntir og göumyndlist) sem skáldið setti saman ásamt tveimur félögum sínum, Kamenskij og Búrljúk, árið 1918 sagði m.a. þetta:

1. Héðan í frá fer það saman við upprætingu keisaralegs stjórnkerfis að afnumin er búseta listarinnar í geymslum og skemmum mannlegrar snilldar – í höllum, listasöfnum, sýningarsölum, bókasöfnum og leikhúsum.

2. Í nafni hinnar miklu sigurgöngu jafnstöðu hvers og eins andspænis menningunni verði Hið Frjálsa Orð hins skapandi persónuleika skráð á húsveggi, grindverk, þök og gatnamót borga okkar og bæja, sem og á bök bíla, vagna, sporvagna og á flíkur allra þegna. ...

Megi hver göturnar verða öllum listahátið.

(þýðing Árna Bergmann úr ritinu Yfirlýsingar sem er eitt af lærdómsritum Bókmenntafélagsins).

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia Commons
Skáldið Mayakovsky vildi nýja list fyrir nýja tíma á öllum sviðum sovésks samfélags.

Ný sýningin í London

Í listasafninu mikla við Thames bakka í London, Tate Modern, verður opnuð á morgun sýningin Rauð stjarna yfir Rússalandi – bylting í myndmenningu 1905-1955. Kjarni þeirrar sýningar er ótrúlegt safn ljósmyndarans og grafíska hönnuðarins Davids King sem fæddur var árið 1946 en lést á síðasta ári. King safnaði að sér yfir 250 þúsund gripum sem tengdust þessu tímabili í rússneskri menningarsögu á meðan hann starfaði fyrir tímarit breska dagblaðsins The Sunday Times á áttunda áratugnum en Tate safnið eignaðist þessa arfleifð Kings að honum látnum. Þarna gefur meðal annars að líta sjaldgæf áróðurs veggspjöld, ljósmyndir og prentgripi sem sumir hverjir bera merki ritskoðunar af hálfu stjórnvalda.

Frelsið þurkað burt

Auðvitað át byltingin börnin sín í Sovétríkjunum, almennt með skelfilegum afleiðingum og líka þegar kom að listum. Fjölmargir listamenn gengu fyrir björg þegar kom að því að fegra stjórnvöld sem brutu niður frjálsa tjáningu og málfrelsi.

Að lokum fór svo að tímabundið umburðarlyndi gagnvart tilraunamennsku var afturkallað og listaverk áttu aðeins að vegsama ríkjandi stjórnvöld. Áróðurinn varð ofan á og þeir sem ekki vildu spila með voru settir út í kuldann. Þetta gerðist ekki bara á valdatíma Stalíns heldur var komið á skrið á meðan Lenín var við völd, en hann lést árið 1924.

Lenín var til dæmis sérstaklega umhugað um áróðursmátt kvikmyndanna sem hann taldi mikilvægustu listgreinina og þá sem líklegust var til að styðja við málstaðinn og hafa öflug áróðursáhrif. Árið 1922 sendi hann meðal annars frá sér leiðbeiningar um kvikmyndaiðnaðinn og sagði þar:

Lifandi myndir sem eru í eðli sínu áróður eða menntun fyrir fjöldann þurfa gamlir Marxistar og höfundar að fara yfir til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig að áróður vinni gegn upphaflegum tilgangi sínu. Sérstakalega þarf að skipuleggja kvikmyndasýningar í þorpum og í austrinu, þar sem þær eru nýjungar og þar sem áróður okkar verður líklega mun áhrifameiri.

Tíu árum eftir byltinguna, árið 1927, hélt kvikmyndaleikstjórinnn Sergei Eisenstein upp á afmælið með því að senda frá sér áróðursmynd um atburðina: 

Í þættinum Víðsjá á Rás 1 var fjallað um áhrif byltingarinnar á listir og menningu í þessu risastóra landi. Umfjöllunina má heyra hér í spilaranum að ofan.