Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Listaverkin og tíminn sem þau geyma

Mynd: Museum Jorn  / Museum Jorn / Facebook

Listaverkin og tíminn sem þau geyma

25.08.2017 - 12:42

Höfundar

Hvað eru samanburðarhæf skemmdarverk? Á nýrri sýningu, sem opnuð verður á laugardag kl. 16 í Listasafni Íslands fæst kannski svar við þessari spurningu. Sýningin heitir Comparative Vandalism og gefur innsýn í vinnubrögð og óbilandi forvitni danska myndlistarmannsins Asgers Jorn. Fjallað var um sýninguna í Víðsjá. Umfjölunina má heyra hér að ofan.

Einka listasaga

Í árslok 1950 hóf danski mynslitarmaðurinn Asger Jorn (1914-1973) að vinna að annars konar listasögu. Ætlun Jorns var að segja á stofn sína eigin Skandinavísku samanburðarstofnun um skemmdarverk (e.  Scandinavian Institute of Comparative Vandalism). Jorn stefndi að því að skapa alfræðirit í 32 bindum, sem ætti að fjalla um norræna alþýðulist, en tugir þúsunda ljósmynda hans fyrir verkefnið enduðu ónotaðar í heilmiklu skjalasafni.

Forvitnileg vinnubrögð

Hluta þessa safns hefur sænski listamaðurinn og sýningarstjórinn Henrik Anderson tekið upp á arma sína og komið saman í sýningunni Comparative Vandalism. 

Sýningunni er ætlað gefa innsýn í forvitnileg vinnubrögð danska myndlistarmannsins sem er einn þekktasti og dáðasti listmálari Dana á 20. öld. Asger Jorn var einnig miðlægur í Kóbrahópnum, sem íslenski listmálarinn Svavar Guðnason tengdist einnig. 

Mynd með færslu
 Mynd: Donation Jorn - Donation Jorn / Listasafn Íslan
Yfir 50 þúsund ljósmyndir eru í þessu safni Asgers Jorn

Ótrúlegt magn mynda

Á sýningunni verður svokölluðum contakt-prentörkum stillt upp, en á hverri örk eru tólf af þeim ljósmyndum sem Jorn og samstarfsverkamenn hans söfnuðu á ferðum sínum. Þetta voru listasögulegar rannsóknarferðir sem farnar voru um alla Evrópu, en þó aðallega á Norðurlöndum.

Safnið er risastórt. Það telur um 50 þúsund ljósmyndir en Anderson einbeitir sér að myndum sem Asger Jorn tók þegar hann varði sumrinu 1964 á Gotlandi, sænskri eyju í Eystrasalti.

Listasöguverkefnið kallaði Jorn 10.000 ár norrænnar alþýðulistar en Anderson segir Jorn einkum hafa haft áhuga á miðaldalist og þá ekki síst seinni tíma viðbótum við hana. Hann var heillaður af því hvernig lög tímans, breytingar eða lagfæringar hafi eins og hlaðist ofan á listaverkin sem hann fann. Einhver var til dæmis búinn að rispa stafi í kirkjuvegg eða seinni tíma viðbætur við byggingar hafa átt að styrkja burðarþol þeirra.

Grín og alvara

Anderson segir að rannsóknir Jorn hafi í senn verið alvarleg skoðun á alþýðlegum skapandi tilburðum fólks í gegnum aldirnar, því hvernig það hefur skemmt (myndu sumir segja) listaverkin með því að eiga við þau, og útsmogin gagnrýni á alvarlega listasögu og stigveldi listarinnar.

„Þessi hugsun Jorn var ögrun við hefðbundna listasögu og tilraunir hans til að gefa þessa könnun sína út, til hliðar við meginstraum listasöngunnar, báru ekki árangur. Þær voru í raun stöðvaðar. Jorn var pólitískur listamaður, byltingarmaður og framúrstefnumaður, “ segir Anderson.

Mynd með færslu
 Mynd: Museum Jorn  - Museum Jorn / Facebook
Asger Jorn var einn þekktasti listmálari Dana á 20. öld

Íslenska samhengið

Íslensk listasaga stendur auðvitað í nánu samhengi við norræna listasögu. Birta Guðjónsdóttir, deildarstjóri sýningardeildar í Listsafni Íslands, er í hópi fólks í íslenskri myndlist sem hefur velt fyrir sér stöðu Asgers Jorn, til dæmis í listasögukennslu hér á landi. 

„Við höfum viljað kanna þennan mann nánar og hvort hann komi okkur Íslendingum ekki meira við,“ segir Birta. „Hann kom hingað til lands og dvaldi í tvær vikur árið 1967 og sú ferð var í raun hluti af þessu mikla verkefni. Jorn setti sig í samband við Dr. Selmu Jónsdóttur, forstöðumann Listasafns Íslands, og svo fór að hún gerði ljósmyndara út af örkinni til að safna myndum. Þær ljósmyndir eru því miður týndar og því rataði íslenska efnið aldrei inn í þetta mikla safn.“

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér. Umfjöllunin úr Víðsjá á Rás 1 er í spilaranum hér að ofan.