Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Listaháskólanemar endurgera leikvöll

17.05.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmi Fannar Irmuson
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmi Fannar Irmuson
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmi Fannar Irmuson
Rekaviður, gamalt stýrishús og bobbingur úr fjörunni er meðal þess sem hópur nemenda úr Listaháskóla Íslands notaði til að byggja nýjan leikvöll fyrir grunnskólanemendur á Drangsnesi. Krakkarnir í grunnskólanum voru orðnir þreyttir á gömlu leiktækjunum og komu því á framfæri við skólayfirvöld. Oddviti Kaldrananeshrepps hafði samband við Listaháskólann og svo varð úr að ellefu nemendur af fyrsta ári í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands vörðu tæplega viku í endurgera leikvöllinn.

Enginn fallturn eða diskókúlur

Hópurinn fór yfir óskir krakkanna og löguðu tæki, tól og efnivið að litlu fjármagni: „Við litum þó aldrei á það sem vankost, enda kemur það oftar en ekki fyrir í náminu að við erum að reyna að skapa verðmæti úr litlu sem engu,“ segir Steinn Einar Jónsson, einn Listaháskólanemendanna. Unnið var með fjöruna og sjóinn: „Við vildum ekki koma og sprengja upp staðinn með fallturni og diskókúlum, það er nauðsynlegt að virða umhverfið sem að maður vinnur í hverju sinni.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmi Fannar Irmuson
Stýrishús er hjarta leikvallarins

Stýrishús hjarta leikvallarins

Hópurinn notaði mikið rekavið sem má finna í námundan við Drangsnes sem og gamalt stýrishús sem hafði áður verið á leikvellinum en hafði verið fært aftur fyrir frystihúsið. „Eftir að við sóttum það fóru leikskólabörnin í göngutúr ásamt kennara sínum og voru mörg hver gráti næst þegar þau sáu ekki stýrishúsið sitt sem þau léku sér alltaf í þegar þau gengu þarna um. En þau voru fljót að taka gleði sína aftur þegar þeim var sagt að það ætti að gera það fínt aftur og koma með það ennþá nær þeim,“ segir Steinn Einar. Hann segir að tveir tónlistarmenn og hljóðnördar í bekknum hafi smíðað hljóðfæri úr bobbing sem var dreginn úr fjörunni og svo var byggt útikennslusvæði fyrir framan skólann, samverusvæði og eldstæði, sandkassi og klifurgrind við stýrishúsið, allt úr rekavið. Rólur voru gerðar upp og körfuboltaspjaldi komið fyrir sem og búið til lítið japanskt drullubeð þangað sem vatn rennur úr fjallshlíðinni í kjölfar leysinga. „Við unnum með það sem við höfðum og erum virkilega stolt og ánægð með útkomuna,“ segir Steinn Einar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmi Fannar Irmuson
Japanskt drullubeð

Íbúar lögðu hönd á plóg

Steinn Einar segir það hafa komið skemmtilega á óvart hvað íbúar voru boðnir og búnir til að aðstoða við verkefnið. „Upp úr fjársjóðskistum bæjarbúa var dreginn gamall björgunarhringur, þetta forláta harðviðarstýri og hinir ýmsu hlutir sem gerðu okkur kleift að setja punktinn yfir i-ið í hönnun leikvallarins.“ Hann segir það sannarlega gefa aukinn kraft að finna fyrir þessu fólki standa við bakið á sér. „Það fór eitthvað af stað í bænum og ég held að okkur standi meira að segja öllum til boða vinna í frystihúsinu hvenær sem við viljum,“ bætir hann við.

Fordæmisgefandi verkefni

Steinn Einar segir alla hafa verið mjög ánægða með útkomu verkefnisins. Aðspurð hvort verkefnið sé fordæmisgefandi segir Rúna Thors, sem hafði umsjón með verkefninu: „Engin spurning að lögð verður áhersla á gera eitthvað í svipuðum dúr á ári hverju héðan í frá.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður