Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Líst mjög illa á fimm flokka stjórn

Mynd: RÚV / RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að eins og staðan er í dag séu stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokkinn ekki á borðinu. Honum líst mjög illa á fimm flokka ríkisstjórn.

Bjarni mætti til fundar við Katrínu Jakobsdóttur í Alþingishúsinu í dag, síðastur allra formanna þingflokka. 

En kæmi til greina að Sjálfstæðisflokkurinn yrði kallaður til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna? „Eins og staðan er í dag þá er það ekki uppi á borðum,“ segir Bjarni. Honum hugnast ekki áform hennar um fimm flokka stjórn. „Mjög illa, og ég sagði það við hana líka,“ segir Bjarni. „Það eru margir möguleikar á þriggja flokka stjórn, eftir atvikum ef þess þarf, fjögurra flokka stjórn. Mér finnst alveg fráleitt að leggja upp með að það sé góð hugmynd að setja af stað samstarf fimm stjórnmálaflokka við þessar aðstæður og það hefur ekki breyst frá kosningum að það er ekki lífvænleg hugmynd að byggja á samstarfi fimm flokka.“

Bjarni segir vel hægt að leggja til hliðar þau atriði sem aðskilja Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn. „Við þessar aðstæður sem eru núna þá finnst mér vel hægt að brúa pólitískan ágreining betur,“ segir Bjarni.