Líst illa á stórfellda sameiningu í útgerð

09.04.2014 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Rósa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins G. Run. í Grundarfirði, vonast til að ekki komi til stórfelldrar sameiningar útgerðarfyrirtækja. Ef menn horfi til stórra eininga í greininni verði ekki hugsað jafnvel um samfélögin á landsbyggðinni eins og gert er í dag.

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík spáir því að útgerðarfyrirtæki á Íslandi muni sameinast og að sú sameining muni gerast hratt, eins og fram kom í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi. Þar kom fram sú spá Péturs að minni og meðalstórar útgerðir muni verða hluti af stærri einingum. Þetta sé eina leiðin í ljósi aukins kostnaðar.

„Mín skoðun er náttúrulega að ég vona innilega ekki, en eins og staðan er í sjávarútvegi í dag þá er hætta á því,“ segir Rósa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri G. Run í Grundarfirði. „Það verða sameiningar og það eru nýleg dæmi um að fyrirtæki hafi verið að sameinast og stækka einingar. Ástæðan er náttúrulega að aukinn skattur á sjávarútvegsfyrirtækjum er orðinn mjög mikill og hefur mjög mikil áhrif á litlar og minni einingar í samfélaginu okkar, þannig að þetta er hætta.“

G. Run. gerir út tvo litlar togara og er með um 85 manns í vinnu. Rósa segir að vissulega komi lítill snjómokstur á vegum og óöryggi í rafmagnsafhendingu koma sér illa fyrir mörg fyrirtæki á lansdbyggðinni. En möguleg sameiningu fyrirtækja yrði slæm þróun af ýmsum ástæðum. „Ég myndi sjá fram á að ef við værum bara að keyra allt í stórum einingum, þá værum við ekki að hugsa eins mikið um samfélögin úti á landi eins og við gerum í dag.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi