Línur slitnuðu og staurar brotnuðu vegna íss

16.03.2019 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Rafmagnslaust hefur verið víða í Skaftártungu, Meðallandi og í Mýrdal í nótt og í dag. RARIK vinnur enn að viðgerðum og hefur ekki enn fundið allar bilarnir.

Vegna óvenju mikillar ísingar í nótt slitnuðu línur og staurar brotnuðu með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð á stóru svæði á Suðurlandi. Það hefur komið illa við bændur sem hafa margir gripið til dísilrafstöðva til þess að geta sinnt búfé og framleiðslu í fjósum.

Vegna bilunar í tilkynningakerfi RARIK tókst ekki að láta viðskiptavini vita af rafmagnsleysinu og er einnig unnið að viðgerðum á því, að sögn Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK. Vegna bilunarinnar var viðbragð RARIK einnig lélegt í nótt.

Á bæjum þar sem engra dísilrafstöðva nýtur við er ekki hægt nota nútímafjós eins og að Langholti í Meðallandi. Þar býr Jenný Lind Grétudóttir. Hún segir bændur í sveitinni vera orðna þreytta á lélegri þjónustu frá RARIK.

Spurð hvernig ástandið er í fjósinu á Langholti segir Jenný: „Það er engin fóðurgjöf, það er ekki búið að mjólka, það er engin kæling á mjólkinni og flórsköfur eru óvirkar svo það er allt í skít og drullu. Og svo virkar kálfafóstran ekki heldur.“

Jenný segir að RARIK sé búið að útvega henni dísilrafstöð sem var verið að flytja frá Hvolsvelli þegar fréttastofa ræddi við hana. „Við erum búin að kría út einhverja rafstöð. en það var ekkert auðvelt að fá hana, en vegna þess að við erum með reynslu í þessum málum því rafmagnið fer svo oft hérna, að þá vitum við hvað við getum farið fram á.“

Jenný nefnir að þetta hafi viðgengist á meðan bændur greiði hærra raforkuverð en íbúar í þéttbýli. „Við borgum tvöfalt á við þéttbýlisbúa,“ segir hún. „Og svo megum við búa við það að rafmagnið fer oft af hérna.“

Björgunarsveitarmenn berja af línunum

RARIK hefur unnið að viðgerð í allan dag og þegar hefur tekist að koma rafmagni á stóran hluta þess svæðis sem varð rafmagnslaust í nótt. Björgunarsveitir hafa meðal annars verið kallaðar út til þess að berja ís af línum til þess að forða frekari skemmdum og rafvirkjar vinna að því að tengja þær línur sem slitnað hafa.

Að sögn Tryggva Þórs var ekki búið að finna bilunina í Mýrdalnum síðdegis í dag og óvíst hvar hana væri að finna.

Á þessu svæði er víðast hvar einfasa rafmagn sem lagt er á staura ofan jarðar. Tryggvi Þór segir að í ár standi til að leggja þriggja fasa rafmagn í jörð í Álftaveri og í Meðallandi á næsta ári. Rafmagnslínur verða svo lagðar í jörð í Skaftártungu árið 2021.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi