Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Linsurétturinn með hrísgrjónunum

26.11.2015 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Þessi réttur kemur sko á óvart! Hann er svipaður pastanu sem ég gerði eitt sinn, að því leyti að ég bý hann til, þegar ég má ekki vera að því að elda eða nenni því ekki. Þetta er ljúffengur, ódýr og einfaldur matur, sem eldar sig sjálfur á meðan ég geri eitthvað allt annað! Þetta þurfa allir þreyttir foreldrar að kunna!

Linsurétturinn með hrísgrjónunum

Fyrir um það bil 3

2 dl hýðishrísgrjón (leggja í bleyti í um 30 mín. til 2 klst. ef tími er til)
2 dl puy linsur (leggja í bleyti í um 30 mín. til 2 klst. ef tími er til)
1 msk. grænmetiskraftur án msg (væn!)
1/2 -1 gúrka
4-5 þroskaðir (vel rauðir) tómatar eða 15-20 konfekttómatar
3 íslenskar gulrætur (má sleppa)
3 dl rifinn mozzarellaostur (meira ef vill)

Sósan - hún er algjörlega nauðsynleg!

Blanda saman:

1-11/2 dl kaldpressuð ólífuolía
½-1 sítróna, safinn eða 1 lime/súraldin, safinn
1 tsk. sjávarsalt
Handfylli söxuð steinselja (má sleppa og má nota aðra kryddjurt eins og basilíku eða myntu sem dæmi)

Skolið grjónin vel og sjóðið í 4 dl af vatni í um 30-40 mínútur við vægan hita (eða þangað til allur vökvi er farinn og grjónin eru orðin mjúk; 25-30 mín ef þau eru lögð í bleyti áður, annars 40 mínútur.
Skolið linsurnar vel og sjóðið í um 6 dl af vatni og grænmetiskraftinn með í 40 mínútur.
Á meðan hýðishrísgrjónin sjóða og linsubaunirnar skuluð þið skola gúrkuna, tómatana og gulræturnar og skera í munnbita.
Raðið svo fallega á stóran disk, gúrku, tómötum, gulrótum, hýðishrísgrjónum og linsum.
Ostinn set ég í sér skál sem og sósuna í litla sósukönnu.

Tilbúið!

Aukaupplýsingar
*Þegar þið sjóðið linsur eru hlutföllin 1:3 (1 hluti baunir og 3 hlutar af vatni)
*Ég skola alltaf smá bita af kombuþara og set út í þegar ég er að sjóða linsur og baunir. Það gerir þær auðmeltari fyrir okkur (minna loftmyndandi) og gefur kraft í soðvatnið/súpuna.
*Þegar þið sjóðið heilkorn (eins og hýðishrísgrjón, quinoa, heila hafra o.s.frv.) þá eru hlutföllin 1:2 (rúmlega 2 af vatni).
*Munið að skola allt korn áður en þið sjóðið það.
*Suðutími korns (eins og hýðishrísgrjóna) styttist um næstum helming ef þið leggið kornið í bleyti í nokkrar klukkustundir áður en þið sjóðið það.
*Linsur eru ódýr, prótein- og járnríkur matur. Linsur geta vel komið í staðinn fyrir kjöt í máltíðum. Ég hvet alla til að prófa að nota linsur í matargerðina.

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir