Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Límonaðisalar súrir yfir ákvörðun Yoko Ono

Mynd með færslu
 Mynd:

Límonaðisalar súrir yfir ákvörðun Yoko Ono

26.09.2017 - 13:45

Höfundar

Listakonan og ekkja Bítilsins John Lennon, Yoko Ono , var ekki par sátt á dögunum þegar hún frétti að pólskt límonaðifyrirtæki væri að nota nafn og ímynd eiginmannsins sáluga í nýrri markaðsherferð.

Ono hótaði lögsókn og sakaði Mr. Lemonade Alternative Drinks um að misnota ímynd Lennon í markaðssetningu á drykknum „John Lemon“. Í frétt Reuters um málið kemur fram að fyrirtækið hafi í kjölfarið samþykkt að breyta nafninu í „On Lemon,“ en lögfræðingar Ono höfðu hótað fjársektum að andvirði 5000 evra á dag, og 500 evra fyrir hverja selda flösku af drykknum. 

Auk þess var hluti af kynningarefni drykkjarins sólgleraugu, lík þeim sem John Lennon notaði, auk þess sem slagorðið „Let it be“ fylgdi lógói vörunnar, en slagorðið er vísun í eitt frægasta lag Bítlanna.

Lögfræðingar „John Lemon“ bentu einnig á að fyrirtækið hefði keypt vörumerkið árið 2014, en Ono hefði ekki tryggt sér eignarréttinn á „John Lennon“ fyrr en árið 2016. Talsmaður fyrirtæksins sagði í viðtali við East London Advertiser dagblaðið að allir sem kæmu að vörunni væru í sprotarekstri og gætu ekki tekið áhættuna sem fylgdi því að reyna að leggja jafn fjársterkan andstæðing í málaferlum.

 

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Yoko Ono orðin meðhöfundur Imagine

Mannlíf

Yoko Ono heiðursborgari Reykjavíkur