Lilja vill leiða lista

29.10.2011 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Lilja Mósesdóttir er tilbúin að ræða stofnun nýs stjórnmálaafls sem berst fyrir réttlátari endurreisn og velferðarkerfi á forsendum almennings. Hún segir enn ríkja foringjaræði innan Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Þau Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir tilkynntu landsfundi Vinstri grænna í gærkvöld að þau ætluðu að segja sig úr flokknum. Þau töldu mikilvægt að tilkynna það á landsfundi og þakka um leið stuðninginn og útskýra ákvörðunina.

„Ég sagði félögum mínum í Vinstri grænum að ég hyggðist sitja áfram á þingi en jafnframt vera opin fyrir því að leiða nýtt stjórnmálaafl. Afl sem berst fyrir réttlátri endurreisn og velferðarsamfélagi á forsendum almennings,“ sagði Lilja í viðtali við fréttastofu RÚV.

Lilja sagði enn ríkja foringjaræði innan Vinstri grænna og við slíkar aðstæður nýtist ekki þekking og reynsla einstakra félagsmanna. Lilja var innt eftir því hvort nýtt stjórnmálaafl væri orðið til?

„Það sem ég er í raun að gera núna er að láta alla vita að ég sé tilbúin til að ræða stofnun nýs stjórnmálaafls,“ sagði Lilja að lokum.