Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lilja: Snýst um áherslur en ekki persónur

26.09.2016 - 21:12
Mynd:  / 
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, var fyrsti ræðumaður Framsóknarflokksins á eldhúsdegi Alþingis en hvorki formaður flokksins né forsætisráðherra voru á meðal ræðumanna í kvöld. Lilja sagði Ísland komið af stað á ný með sterkar hendur á stýri eftir að íslenska efnahagsrútan hefði keyrt út í skurð fyrir átta árum.

Lilja hóf reyndar ræðu sína á atviki sem vakið hefur nokkra athygli og fyrst var greint frá á forsíðu Morgunblaðsins í morgun - tvær rússneskar sprengjuflugvélar flugu fimmtán mílum frá íslenskri farþegaþotu á fimmtudag. Utanríkisráðherra sagði að atvik af þessu tagi minnti „okkur á að þótt við búum á eyju er Ísland svo sannarlega ekki eyland þegar kemur að öryggismálum.“

Hún sagði alla sammála um að auknar fjárveitingar til heilbrigðismála bætti samfélagið en fælu ekki í sér greiðasemi við sérstaka hópa. „Við erum öll sammála um, að fjárfesting í menntakerfinu felur ekki í sér greiðasemi við kennara, heldur sé til þess fallin að bæta samfélagið.“

Lilja benti á að eins og fjárframlög til menninga og lista fælu ekki í sér greiðasemi við listamenn væri fjárfesting í matvælaöryggi og atvinnuþróun ekki greiðasemi við ákveðna hópa - bændur og búalið. „Hún er stefnumótandi ákvörðun, um að hér á landi skuli framleidd matvæli, rétt eins og íslenskar kvikmyndir eða bækur sem bera hróður okkar um heim allan.“

Utanríkisráðherra sagði Framsóknarflokkinn vilja tryggja að allt landið væri áfram í byggð og mikilvægast væri að stækka þjóðarkökuna svo meira væri til skiptanna og miklu máli skipti að staða ríkissjóðs væri traust  og„að við tökum ekki á okkur skuldir annarra.“ Hún sagði að þau yrðu að ávinna sér traust hvers annars og takast á um stefnur og málefnalegar áherslur en ekki um einstakar persónur.

Lilja spurði enn fremur hvernig lýðræðisleg niðurstaða væri tryggð í viðkvæmum málum og hvað ætti að gera þegar lýðræðið bitnaði ekki á minnihlutahópum. „Hvað gerum við þegar lýðræði verður markaðsvara – þegar krafan um afþreyingargildið verður almannahagsmunum yfirsterkara? Þegar við keppumst um að skrifa skemmtilegustu stöðufærsluna– eða þá grófustu?“ Spurði Lilja og virtist skjóta nokkuð föstum skotum á samstarfsflokkinn í ríkisstjórn þegar hún spurði:„Þegar lýðræði skilar niðurstöðum úr prófkjöri sem eru á skjön við gildi samfélagsins, t.d. um kynjajafnrétti?“ Hún nefndi einnig deiluna við matvörukeðjuna Iceland - Íslendingar ættu að standa á rétti sínum sem þjóð eins og þeir hefðu gert í Icesave.  

Utanríkisráðherra sagði að fyrir átta árum hefði íslenska efnahagsrútan keyrt út í skurð þar sem hún hefði setið föst í nokkur ár. „ En við erum komin af stað á ný með sterkar hendur á stýri. Til að byrja með var leiðin hál og brekkan brött, en með mikilli seiglu erum við komin á jafnsléttu á ný og leiðin er greið. Hins vegar hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að hafa augun á veginum og tryggja að við keyrum ekki of hratt. Því jafnvel þótt vegurinn hafi batnað eru beygjurnar krappar, og augnabliks kæruleysi getur verið dýrkeypt.“ Því yrði reynslumikill bílstjóri að sitja við stýrið sem kynni að keyra við ólíkar aðstæður.