Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lilja næði ekki kjöri og ríkisstjórnin félli

03.01.2019 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Framsóknarflokkurinn fengi engan þingmann kjörinn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú, ef marka má Þjóðarpúls Gallup. Framsóknarflokkurinn fengi samtals sjö þingmenn á landsvísu og kæmu sex úr landsbyggðakjördæmum og einn úr Kraganum. Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, myndi ekki ná kjöri.

Miðflokkurinn fengi aðeins þrjá þingmenn kjörna á landsvísu ef marka má Þjóðarpúls Gallup. Flokkurinn fékk sjö menn kjörna í Alþingiskosningunum 2017. Aðeins einn þingmaður yrði kjördæmakjörinn, í Suðurkjördæmi þaðan sem Birgir Þórarinsson þingmaður kemur. Miðflokkurinn fengi tvo jöfnunarþingmenn kjörna. Ekki er hægt að segja með vissu úr hvaða kjördæmum þeir þingmenn kæmu.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi flesta þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mestan stuðning í Þjóðarpúlsi Gallup á landsvísu og fengi flesta þingmenn ef kosið yrði nú, 15 talsins. Flokkurinn hefur nú 16 þingmenn eftir kosningar 2017. Næst stærsti flokkurinn á þingi yrði Samfylkingin með 13 þingmenn. Flokkurinn fékk 7 þingmenn kjörna í síðustu kosningum.

Samfylkingin er vinsælasti flokkurinn í Reykjavíkurkjördæmunum, fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn úr hvoru, sex samtals. Sjálfstæðisflokkurinn fengi tvo úr hvoru kjördæmi. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram lang stærstur í Kraganum og fengi fjóra kjördæmakjörna þingmenn þar.

Í landsbyggðakjördæmum er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur eða jafnstærstur nema í Norðausturkjördæmi þar sem Samfylkingin fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn gegn tveimur sjálfstæðismönnum.

 

Ríkisstjórnin félli

Ef marka má niðurstöður Þjóðarpúlsins þá myndi ríkisstjórnin ekki halda velli ef kosið yrði nú. Samanlagt fengju Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð 30 þingmenn kjörna. 32 þingmenn þarf til þess að mynda meirihluta á Alþingi.

Vinstri græn fengju átta þingmenn kjörna á landsvísu ef gengið yrði til kosninga nú. Flokkurinn fengi einn kjördæmakjörinn þingmann í öllum kjördæmum og tvo jöfnunarþingmenn. Framsóknarflokkurinn fengi sjö kjördæmakjörna þingmenn og engan jöfnunarþingmann, eins og áður sagði.

Allir ríkisstjórnarflokkarnir tapa mönnum ef marka má Þjóðarpúlsinn. Vinstri græn fengu ellefu þingmenn kjörna árið 2017 og Framsóknarflokkurinn kom átta mönnum að.

Viðreisn og Píratar myndu bæta við sig

Fyrir utan Samfylkinguna þá myndi Viðreisn bæta mestu við sig miðað við kosningarnar 2017. Viðreisn fengi hvergi kjördæmakjörna þingmenn nema af höfuðborgarsvæðinu, fimm samtals. Í Þjóðarpúlsinum er gert ráð fyrir að Viðreisn fái tvo jöfnunarþingmenn. Fjórir Viðreisnarþingmenn náðu kjöri árið 2017.

Píratar hafa nú sex þingmenn en myndu bæta einum við ef gengið yrði til kosninga nú.

Flokkur fólksins myndi tapa einum þingmanni miðað við núverandi þingmannafjölda ef kosið yrði nú. Fjórir þingmenn undir merkjum Flokks fólksins náðu kjöri í kosningunum 2017 en tveir hafa nú verið reknir úr flokknum og sitja sem óháðir á Alþingi. Þrír frambjóðendur Flokks fólksins myndu ná kjöri í kosningum yrðu þær haldnar nú og yrðu enginn þeirra kjördæmakjörinn.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV