Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Líklega lokað á Króata til 2015

13.07.2013 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld munu að öllum líkindum nýta sér undanþáguheimild til að fresta því að Króatar, sem gengu í ESB á dögunum, fái aðgang að íslenskum vinnumarkaði í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Þetta herma heimildir úr stjórnkerfinu.

Króatía varð tuttugasta og áttunda aðildarríki Evrópusambandsins um síðustu mánaðamót. Atvinnuréttindi á Íslandi breyttust ekki sjálfkrafa við inngönguna. Sérstaklega þarf að semja um aðild Króatíu að Evrópska efnahagssvæðinu og það er fyrst þegar því er lokið sem aðgangur milli landanna opnast. Viðræður standa yfir en samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þess vænst að þeim ljúki með haustinu.

Íslensk stjórnvöld geta nýtt sér undanþáguheimild til að seinka því um tvö ár að opna íslenskan vinnumarkað en formleg ákvörðun um það hefur ekki verið tekin. Samkvæmt heimildum fréttastofu úr stjórnkerfinu eru þó allar líkur á að heimildin verði nýtt eins og þegar Búlgaría og Rúmenía gengu í ESB 2007. Hægt er að framlengja heimildina um þrjú ár til viðbótar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Útlendingastofnun hefur undanfarið synjað tugum manns frá Króatíu um hæli hér á landi.

Undanþáguheimildin heyrir undir félagsmálaráðherra. Í áliti ASÍ til ráðuneytisins er óskað eftir því að stjórnvöld nýti hana. Í minnisblaði kemur fram að ef til vill séu ekki veigamikil vinnumarkaðsleg rök fyrir því. Aftur á móti geti staðan breyst á skömmum tíma. Liechtenstein og Noregur ætli að nýta sér heimildina og ákveðin rök séu fólgin í því að eiga samleið með Noregi.