Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Líklega kosið 16. apríl

21.02.2011 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lögin verður að öllum líkindum 16. apríl. Ríkisstjórnin ætlar að taka formlega ákvörðun í fyrramálið. Ekki er einhugur um hvort endurtaka eigi kosningu til stjórnlagaþings um leið.

Samkvæmt sérstökum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem þingið samþykkti í sumar, eru tveir mánuðir til stefnu eftir að forsetinn ákveður að staðfesta ekki lög frá Alþingi. Formleg ákvörðun er á hendi innanríkisráðuneytisins en í raun er það ríkisstjórnin sem ákveður hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan verður. Hún kemur saman í fyrramálið og ætlar að afgreiða málið þá. Samkvæmt heimildum fréttastofu horfa menn til laugardagsins 16. apríl. Það mun vera dagurinn sem innanríkisráðuneytinu hugnast best.


Hugmyndir um að endurtaka kosningarnar til stjórnlagaþings um leið, flækja málið líka talsvert. Til að svo megi verða þarf að breyta lögum og menn vilja nýta tímann og undirbúa hlutina vel í ljósi þess sem á undan er gengið. Stjórnarliðar eru þó ekki á einu máli um hvort ráðlegt sé að blanda þessum málum saman.


Allir þingflokkar hittust í Aþingishúsinu eftir hádegið í dag og fóru yfir stöðuna. Ekki kemur til greina að kjósa um aðra óskylda hluti um leið, að minnsta kosti ekki miðað við lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur.


Síðan vilja menn væntanlega líka kjósa nýja landskjörstjórn, en hún sagði öll af sér eftir að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna.


Enn hafa ekki borist nein formleg viðbrögð frá Bretum eða Hollendingum vegna ákvörðunar forsetans í gær, þótt margt hafi verið sagt í fjölmiðlum ytra síðasta sólarhringinn. Íslenskir embættismenn hafa þó verið í sambandi við embættismenn í löndunum tveimur og reynt að útskýra stöðuna.