Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líkir framkvæmdum í Eldvörpum við rányrkju

03.04.2018 - 21:05
Mynd: Ellert Grétarsson / Ellert Grétarsson
Verktakar á vegum HS Orku eru byrjaðir að gera borteig við gígaröðina Eldvörp á Reykjanesi í landi Grindavíkurbæjar. Teigurinn er sá fyrsti af fimm sem til stendur að setja upp. Hver borteigur á að vera 5.000 fermetrar að stærð. Ellert Grétarsson tók myndir af framkvæmdunum og birti á Facebook-síðu sinni. Margir hafa deilt myndunum og á samfélagsmiðlum hefur mikil umræða skapast um framkvæmdirnar.

Ómar Ragnarsson, náttúruverndarsinni, sagði í Kastljósi í kvöld að hvergi á þurrlendi jarðar sé að finna gígaraðir eins og hér á landi. Gígaröðin Eldvörp sé nokkurn veginn þráðbein og tíu kílómetra löng. Líka séu móbergshryggir sem hafi myndast undir jökli og séu meðal djásna landsins „Því þarf að fara varlega við að gera þessi svæði að iðnaðarsvæðum. Annað sem er merkilegt við þetta svæði er að þarna undir er sameiginlegt orkuhólf með Svartsengi. Með því að fara í þessa gígaröð og pumpa þarna upp orku þá er bara verið að flýta fyrir hinum óhjákvæmilegum endalokum. Orkan á eftir að ganga til þurrðar. Þetta kalla ég „skó-migu-stefnu“. Að pissa í skó sinn í stað þess að láta þetta bara eiga sig og sæta því að þetta endist ekki; þetta er rányrkja,“ sagði Ómar.

Eldvörp eru á rammaáætlun

Ármann Halldórsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Grindavíkurbæjar, var einnig gestur Kastljóssins í kvöld. Eldvörp eru í landi bæjarfélagsins. Hann sagði að aðdragandinn að framkvæmdunum hafi verið langur, sjö ár. Allir umhverfisþættir hafi verið metnir. „Eldvörp eru í rammaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. Ég veit ekki hvernig við ætlum að ná upp orkunni án þessara borteiga. Það er tæknilega ekki hægt.“

Ármann segir að Grindavíkurbær hafi gengið langt til að lágmarka rask á náttúrunni við framkvæmdirnar. Til dæmis hafi borteigunum verið fundinn annar staður en áður stóð til og þeir minnkaðir. „Það er leitt að sjá hraunið fara en þetta er það sem þarf að gera til að ná orkunni upp,“ segir hann. 

Segir brýnt að auka framleiðslu á heitu vatni

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, sem stendur að framkvæmdunum, segir það matsatriði hvort framkvæmdirnar séu ekki of nálægt gígunum. „Okkar hlutverk er að uppfylla þarfir samfélagsins, með orkuútvegun, ekki eingöngu raforku, heldur líka ferskvatn, neysluvatn, ásamt heitu vatni og hitaveituvatni.“ Hann segir vert að skoða framkvæmdirnar í samhengi. Öll leyfi hafi fengist fyrir framkvæmdinni og það þurfi að auka framleiðslu á heitu vatni fyrir byggðir á Suðurnesjum. „Þetta er líklegasti heppilegi staðurinn til þess. Það er ekki þar með sagt að verði reist orkuver í Eldvörpum. Það er hægt að leiða jarðhitavökvann nokkuð langan veg frá gígaröðinni, til dæmis að Svartsengi eða áleiðis til sjávar og vinna þar úr orkunni.“ 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir