Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Líkir Færeyingum við Anders Breivik

11.08.2011 - 17:28
Sea Shepherd-samtökin fá hvergi leigðan sal í Færeyjum til að kynna heimamönnum málstað sinn. Leiðtogi samtakanna líkir grindadrápi við fjöldamorðin í Útey.

Færeyingar eru ævareiðir Sea Shepherd-samtökunum og leiðtoga þeirra Paul Watson, sem kominn er til eyjanna með tvö skip og kvikmyndatökulið til þess að koma í veg fyrir grindhvalaveiðar. Á heimasíðu samtakanna er leiðangurinn kallaður Operation Ferocious Isles, eða aðgerðin gegn hinum grimmu og villimannslegu eyjum.

Paul Watson, forsprakki samtakanna, segir á Facebook síðu sinni að innblástur frá færeyskum slátrurum hafi augljóslega hvatt fjöldamorðingjann Anders Breivik til ódáða.

Watson á fjölmarga aðdáendur um heim allan en honum gengur afleitlega að vinna fagnaðarerindi sínu fylgi meðal Færeyinga. Þó að þá greini innbyrðis á um flest milli himins og jarðar sameinast þeir í andstöðu sinni við Sea Shepherd.

Watson hafði auglýst kynningarfund sem halda átti á Hótel Þórshöfn um næstu helgi en af því verður ekki því að hótelið skellti í lás þegar í ljós kom að sá sem bókaði salinn var leppur samtakanna.

Þá hefur Watson verið neitað um aðstöðu í helstu fundarsölum bæjarins, svo sem í Hótel Hafnia, Miðlahúsinu, Norðurlandahúsinu og Hafnarbíói. Þá reyndi hann fyrir sér í Götu á Austurey en gekk þaðan bónleiður til búðar.

Sea Shepherd-samtökin hika ekki við að beita skemmdarverkum til að ná fram markmiðum sínum eins og Íslendingar kynntust þegar þau sökktu tveimur hvalveiðiskipum í Reykjavíkurhöfn.

Mörg önnur umhverfisverndarsamtök fordæma vinnubrögð Sea Shepherd, meðal annars Greenpeace en þar á bæ hafa menn samþykkt að hafna alfarið samskiptum við Sea Shepherd þó að hvorir tveggja fordæmi hvalveiðar.