Líkar ekki að Alþingi rannsaki sig sjálft

16.01.2019 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Anna Kolbrún Árnadóttir, starfandi þingflokksformaður Miðflokksins, segist ekki hrifin af því að Alþingi rannsaki sig sjálft eins og til standi með nýja forsætisnefnd sem fara eigi yfir Klausturmálið. Hún segist meta stöðu sína ágætlega og telur sig í fullum rétti til að sitja áfram á Alþingi í umboði kjósenda sinna. 

Við sögðum frá því í gær að samkomulag hefði tekist um það að skipa nýja forsætisnefnd, skipaða tveimur til þremur þingmönnum eða fleirum, sem hafi það eina verkefni að fjalla um Klausturmálið og koma því til siðanefndar. Þeir þingmenn þurfi að vera óumdeilanlega hæfir og megi ekki hafa tjáð sig um málið svo hægt sé að draga hæfi þeirra í efa.

Anna Kolbrún Árnadóttir, starfandi þingflokksformaður Miðflokksins, er ein þeirra sem sat Klaustursamkomuna. 

„Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að ljúka þessu máli. Ég er samt sem áður ekki endilega hrifin af því að Alþingi sé að rannsaka sig sjálft,“ segir hún. 

En hvaða önnur lausn væri á þessu viðfangsefni sem er búið að vera svo fyrirferðamikið í samfélaginu síðan í lok nóvember? „Ég veit það ekki. Kannski maður hefði átt að hafa eitthvað prufuefni til að keyra praktíkina til að vita hvað ber að varast.“ Þar vísar Anna Kolbrún til hæfis forsætisnefndar og að kannski hafi þingmenn ekki gert sér grein fyrir hlutverki sínu þegar þeir létu í ljósi skoðun sína á Klausturmálinu í þingsal, ræðustól Alþingis eða á samfélagsmiðlum.

Hvernig metur þú þína stöðu í kjölfar þessa máls? „Ég met stöðu mína ágætlega. Ég viðurkenni að þetta fékk á mig en ég tel mig í fullum rétti til að sitja áfram í umboði minna kjósenda og hef hug á því að starfa að heilindum áfram sem fyrr.“)

Og Anna Kolbrún segist ekki vita hver áform þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar séu, hvort og þá hvenær þeir ætli að snúa aftur til þingstarfa.

„Ég leyfi þeim að sinna sínum málum ég sinni mínum,“ segir Anna Kolbrún.