Líkamsleifar afhentar afkomendum fórnarlamba

30.08.2018 - 05:16
epa06981208 Members of a Namibian delegation mourn during a ceremony where human skulls are displayed in Berlin, Germany, 29 August 2018. The German government handed over the mortal remains of the Herero and Namaqua genocide, committed during the German
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Jarðneskum leifum þorpsbúa sem myrtir voru af þýskum hermönnum í Namibíu snemma á síðustu öld var skilað til namibískra yfirvalda í gær. Leifarnar höfðu verið í Þýskalandi í meira en öld.

Þjóðverjar stráfelldu um 65 þúsund úr Herero þjóðflokknum og um tíu þúsund af Nama þjóðinni á árunum 1904 til 1908 til að koma í veg fyrir uppreisn vegna landtöku þýskra nýlenduherra. Sagnfræðingar segja þetta vera fyrstu þjóðarmorð 20. aldarinnar. Þjóðverjar fluttu mörg líkanna til Þýskalands þar sem þau voru rannsökuð í bak og fyrir. Átti rannsóknin að leiða í ljós yfirburði hvíta mannsins, eins og Evrópubúar töldu margir hverjir að væri rétt á tímum nýlendustefnunnar.

Þær jarðnesku leifar sem eftir voru í Þýskalandi voru afhentar namibískum yfirvöldum með viðhöfn í kirkju í Berlín í gær. Michelle Muentefering, yfirmaður alþjóðamenningardeildar þýska utanríkisráðuneytisins afhenti þær fyrir hönd þýska ríkisins, og baðst um leið fyrirgefningar frá dýpstu hjartarótum. 19 höfuðkúpur, höfuðleður af einni manneskju og aðrar leifar voru meðal þess sem afkomendum þjóðflokkanna var afhent í kirkjunni.

Engin afsökunarbeiðni frá Þjóðverjum

Vekuii Rukoro, höfðingi Herero þjóðflokksins, segir að réttast hefði verið að leifarnar hefðu verið afhentar í einhverri stjórnarbygginga Þýskalands frekar en í kirkju. Þá gagnrýndi Rukoro þýsk stjórnvöld fyrir að hafa aldrei beðist opinberlega afsökunar á ódæðinu í Namibíu, að sögn Al Jazeera. Þýska stjórnin tilkynnti árið 2016 að til stæði að gefa út opinbera afsökunarbeiðni, en ekkert hefur orðið að því ennþá þar sem það situr fast í viðræðum við namibísk stjórnvöld um sameiginlega yfirlýsingu. Þá hafa Þjóðverjar aldrei greitt þjóðflokkunum bætur fyrir hryllingin. Bera stjórnvöld því við að þróunaraðstoð Þjóðverja til Namibíu nemi hundruð milljónum evra síðan Namibía lýsti yfir sjálfstæði árið 1990. Fulltrúar begja þjóðflokka hafa höfðað hópmálsókn gegn Þýskalandi fyrir bandarískum dómstól. Sjálfum þykir Rukoro það hlægileg afsökun að stjórnvöld ríkjanna geti ekki komið sér saman um afsökunarbeiðni.

Um 100 Þjóðverjar voru drepnir af Herero-fólki á nokkurra daga tímabili árið 1904. Fólkið var komið með nóg af landráni þýsku nýlenduherranna, ráni þeirra á Herero-konum og búfénaði. Nama-þjóðin tók þátt í uppreisninni ári síðar. Lothar von Trotha, hershöfðingi Þjóðverja, skipaði þá að þurrka skildi út þjóðirnar. Aðgerðir hersins leiddu til dauða nærri 70 þúsund manna. Höfuð var hoggið af tugum fórnarlambanna og kúpur þeirra sendar til vísindamanna í Þýskalandi. Þeir gerðu rannsóknir sem sýna áttu fram á yfirburði hvíta mannsins, sem nasistar nýttu sér svo til að mynda í áróðri sínum gegn gyðingum.

Greint var frá þjóðarmorðum Þjóðverja í Namibíu í þættinum Í ljósi sögunnar í nóvember 2016. Upptöku af þættinum má nálgast á vef RÚV.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi