Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Liggur ekki á kjarnorkusamningi

28.02.2019 - 04:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ekki liggja á að semja um kjarnorkuverkefni Norður-Kóreu. Miðað við ummælin virðist ráðstefna þeirra Trumps og Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu skila litlu meiru en því sem leiðtogarnir sömdu um í Singapúr í fyrrasumar. 

Þeir Trump og Kim ræddu öðru sinni saman í nótt undir fjögur augu, auk túlka, á jafn mörgum dögum í Hanoi í Víetnam. Að fundinum loknum ræddu þeir stuttlega við fjölmiðla og kváðu þeir báðir fundinn hafa verið góðan. Trump sagði að þó árangur náist ekki í dag sé hann handviss um að Bandaríkin nái frábærum árangri í viðræðum við Kim og Norður-Kóreu með tímanum. Hann sagðist ekki vilja ana að samningi um kjarnorkumál Norður-Kóreu, það skipti meira máli að ríkið héldi aftur af tilraunum sínum með kjarnavopn og flugskeyti. Þá ítrekaði hann spá sína um að Norður-Kórea yrði mikið efnahagsveldi ef ríkið eyddi kjarnavopnabúri sínu.

Kim vonast til þess að fundurinn með Trump leiði til þess að viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu verði aflétt. Hann sagðist ætla að ná góðri niðurstöðu úr viðræðunum, þó margir væru eflaust skeptískir á fund leiðtoganna. Sagði hann að mörgum eigi eflaust eftir að finnast þeir vera að horfa á vísindaskáldskap þegar myndir birtast af leiðtogunum brosandi. Kim sagðist svo taka vel í þá hugmynd að opna bandaríska sendiskrifstofu í Norður-Kóreu, nokkuð sem hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum mánuðum. Trump kvaðst vera sammála honum um það.

Kim  svaraði spurningum bandarískra blaðamanna á ráðstefnunni. Hann var meðal annars spurður að því hverja hann teldi niðurstöðu ráðstefnunnar eiga eftir að verða. Hann svaraði því til að það væri of snemmt að spá fyrir um það, hann hefði þó góða tilfinningu fyrir góðri niðurstöðu. Þetta er líklega í fyrsta sinn sem Kim svarar óundirbúið spurningum bandarískra blaðamanna. Trump virtist vilja aðstoða Kim og bað fjölmiðla um að fara varlega að honum. Þegar blaðamaður spurði Kim hvort hann væri reiðubúinn að ganga strax til verks við afkjarnorkuvæðingu bað Trump blaðamanninn vinsamlegast um að hækka ekki róminn, þetta væri ekki eins og á blaðamannafundi með Trump. Kim sagði þá við Trump að blaðamennirnir virtust allir svo æstir. Þá tók Trump orðið af Kim þegar blaðamenn vildu spyrja hann út í mannréttindamál í Norður-Kóreu. Trump svaraði því til að allt væri rætt á fundi þeirra.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV