Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Liggur ekkert á að ákveða nafn á hraunið

30.10.2014 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Nafnfræðisvið Árnastofnunar hefur ekki tekið ákvörðun um heiti á nýja hrauninu norðan Vatnajökuls. Árnastofnun fylgist með þróun mála á gosstöðvunum norðan Vatnajökuls og umræðu um nafngiftir á hraunið sem þar rennur.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Hallgrímur J. Ámundason hjá Nafnfræðisviði Árnastofnun að nafnið Holuhraun sé komið frá Þorvaldi Thoroddsen, frá því fyrir aldamótin 1900. Síðan gosið hófst í ágústlok hafa verið lögð til nokkur nöfn á nýja hraunið. Til að mynda Nornahraun, sem eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarson lagði til vegna nornaháranna svokölluðu sem myndast í gosinu.

Þá hefur Flæðahraun einnig verið nefnt, eftir örnefninu Flæður, þar sem jökulvatn undan Dyngjujökli rennur um sandana norðan jökulsins. Tryggvi Jakobsson ritstjóri og landfræðingur hjá Námsgagnastofnun hefur varpað fram nokkrum tillögum, til að mynda Dyngjuhraun og Jökulsárhraun og stungið upp á heitinu Flæðaeldar eða Bárðarbungueldar á eldsumbrotin sjálf. Hann hvetur jafnframt kennara til að ræða nafngiftir við nemendur sína og fá þá til að koma með hugmyndir.

Hallgrímur J. Ámundason segir að engin ástæða sé til að ana að neinu um nafn á eldstöðvarnar. Bæði standi eldsumbrotin enn yfir og jafnframt sé gott að gefa nafngiftum tíma. Þá geti fólk mátað nöfnin í munni sér og fengið tilfinningu fyrir því hvernig þau hljómi. Þá komi nafnamál til kasta ýmissa opinbera stofnana. Nafnfræðisvið Árnastofnunar og Landmælingar Íslands eigi samstarf um opinber nöfn og rithætti. Örnefnanefnd geti svo fellt úrskurði, rísi deilur um nöfn. Ekki sé ólíklegt að þessar stofnanir muni á endanum koma nálægt nafngiftum. 

Fréttastofan hvetur almenning til að senda hugmyndir að nafni á hraunið á Facebook síðuna RÚV - Fréttir, hvort sem fólk vill nú halda sig við Holuhraun, eða finna upp á einhverju nýju. 

[email protected]