Lífstíðarfangelsi fyrir njósnir í Barein

04.11.2018 - 14:14
epa04931979 Bahraini women hold posters with the picture of Sheikh Ali Salman, during a protest in Abu Saiba, north of Bahrain's capital Manama, 15 September  2015. The appeal trial for the head of the Shiite opposition movement Al-Wefaq was
Fylgismenn Salmans bera myndir af honum í mótmælum í Abu Salba í september 2015. Mynd: EPA
Leiðtogi stjórnarandstæðinga úr röðum sjía múslima var dæmdur í lífstíðarfangelsi í áfrýjunardómstól í Barein í dag. Honum er gefið að sök að hafa njósnað fyrir Katar.

Sheikh Ali Salman var stjórnandi Al-Wefaq samtakanna, sem nú hafa verið gerð útlæg í Barein. Áður en áfrýjunardómstóll dæmdi hann sekan, hafði glæpadómstóll sýknað hann í júní. Sakskóknari áfrýjaði málinu. Barein var eitt þeirra ríkja í Mið-Austurlöndum sem sleit stjórnmála- og viðskiptatengsl sín við Katar í fyrra. Íbúar Barein mega ekki ferðast til Katar eða eiga samskipti við stjórnvöld ríkisins, vegna tengsla þess við bæði Íran og vígasveitir íslamista. Salman situr þegar í fangelsi, þar sem hann afplánar fjögurra ára dóm fyrir að hvetja til haturs í Barein.

Hamad, konungur Bareins, hefur boðað til þingkosninga síðar í mánuðinum. Stjórnarandstæðingar hafa verið gerðir útlægir og fá ekki að bjóða sig fram í kosningunum. Þá hafa hundruð andófsmanna verið handteknir, og jafnvel sviptir ríkisborgararétti. Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtök á borð við Amnesty og Mannréttindavaktina hafa gagnrýnt Barein fyrir meðferð þeirra á mótmælendum. Þar á meðal er Salman, auk fleiri stjórnarandstæðinga, talinn til pólitískra samviskufanga.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi