Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lífrænar hænur

01.02.2016 - 15:18
Mynd: - / nesbu.is
Nú er hægt að kaupa lífrænt vottuð hænsnaegg á Íslandi. En hvaða skilyrði þurfa hænsnabú að uppfylla til að fá lífræna vottun? Stefán Gíslason fjallar um það í pistli sínum í dag sem lesa má hér að neðan.

Í síðustu viku fékk Eggjabúið Nesbú á Vatnsleysuströnd lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni fyrir nýtt varphænsnabú fyrirtækisins í Miklholtshelli í Flóahreppi. Í búinu eru 12.000 varphænur sem hér eftir er hægt að tala um sem lífrænar hænur sem gefa frá sér lífræn egg. Þessi vottun telst til meiri háttar tíðinda enda er þetta fyrsta hænsnabúið í fullri stærð sem fær vottun af þessu tagi hérlendis.

Þegar farið er að tala um lífrænar hænur er eðlilegt að spurt sé hvort til séu hænur sem ekki eru lífrænar, þ.e.a.s. einhvers konar „ólífrænar hænur“. Það segir sig auðvitað sjálft að engar hænur eru beinlínis ólífrænar, en til þess að hægt sé að tala um lífrænar hænur þarf viðkomandi hænsnabú samt að vera með lífræna vottun. Þetta er í samræmi við gildandi reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu, en þar er þessi tiltekna skilgreining á orðinu „lífræn“ í raun fest í lög. Sams konar reglur gilda í öllum löndum í kringum okkur, þ.á.m. í löndum Evrópusambandsins þar sem tiltekin orð hafa fengið lögverndun í þessu sambandi með Evrópureglugerð um lífræna framleiðslu. Þetta eru orð á borð við „organic“ í ensku, „økologisk“ í dönsku, „ekologiškas“ í litháísku og „biologisch“ í hollensku, svo dæmi séu tekin. Í Evrópureglugerðinni kemur fram að þessi tilteknu orð megi ekki nota neins staðar í löndum sambandsins á merkingum, í auglýsingum eða markaðssetningu fyrir landbúnaðarvörur sem ekki uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um lífræna framleiðslu. Það er með öðrum orðum bannað að markaðsetja t.d. egg sem lífræn nema þau séu með lífræna vottun. Sama gildir auðvitað um grænmeti, kaffi, ávaxtasafa og hvað annað sem á uppruna sinn í ræktun, já, meira að segja snyrtivörur ef út í það er farið. Á sama hátt er ekki hægt að tala um lífrænar hænur nema í hlut eigi hænur sem aldar eru við skilyrði sem uppfylla kröfur lífrænna staðla.

Að fenginni þessari skýringu er eðlilegt að spurt sé hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að hægt sé að tala um lífrænar hænur, eða með öðrum orðum til að hænsnabú geti fengið lífræna vottun. Þessi skilyrði eru fleiri og ítarlegri en svo að hægt sé að gera tæmandi grein fyrir þeim í stuttum útvarpspistli, en meðal helstu krafna sem gerðar eru í þessu sambandi má nefna að fóðrið sem hænurnar fá má ekki vera erfabreytt og verður að standast fleiri kröfur um uppruna og framleiðsluaðferðir. Þá mega hænurnar ekki vera í búrum, gólfflatarmál á hverja hænu verður að ná tilteknu lágmarki, sem er talsvert hærra en í hefðbundinni ræktun, og svo verða hænurnar að hafa aðgang að útisvæði. Þá er bannað að nota fyrirbyggjandi lyf í hænsnaræktinni, nema slíkt sé lögboðið, og önnur lyfjagjöf verður að fylgja ströngum reglum, bæði hvað varðar gerð lyfja og tíðni lyfjagjafa. Þá verður eftirlit með heilbrigði hænanna að fylgja ákveðnu ferli sem er m.a. ætlað að tryggja velferð dýranna. Skýrsluhald um aðföng, fóðrun, heilsufar og sitthvað fleira verður að vera í samræmi við tilteknar kröfur og allt verður þetta að vera rekjanlegt. Egg úr lífrænt vottuðum hænum má markaðssetja og selja sem lífræn ef allt ferlið frá hænsnahúsi til neytanda uppfyllir skilyrði um rekjanleika, efnanotkun og aðskilnað frá annarri vöru. Svo verður vottun á þessu öllu að vera í höndum óháðrar og faggiltrar vottunarstofu.

Vottunarstofan Tún er eina vottunarstofan á Íslandi sem getur vottað lífrænt, en sambærilegar vottunarstofur er að finna í flestum löndum. Allar vottunarstofur í Evrópu styðjast við reglugerðir Evrópusambandsins og gera a.m.k. jafnstrangar kröfur og þar er tiltekið. Einhverjar þeirra hafa jafnvel valið að ganga lengra í einstökum atriðum. Vottunarstofur fyrir lífræna framleiðslu í löndum utan Evrópusambandsins styðjast við svipuð viðmið, þó að þær séu ekki byggðar á sömu reglugerðum. Þetta helgast m.a. af því að aðilar í lífrænni framleiðslu um allan heim hafa með sér víðtækt samstarf og samráð undir merkjum samtakanna IFOAM, sem upphaflega stóð fyrir „International Federation for Organic Agricultural Movements“. Allt þetta tryggir að lífræn vottun felur nokkurn veginn það sama í sér hvar sem maður er staddur í heiminum.

Margir velta því sjálfsagt fyrir sér hvort lífrænt vottaðar vörur séu hollari en aðrar. Við því er ekki til neitt einhlítt svar, en rannsóknir benda þó til að lífrænu vörurnar hafi í mörgum tilvikum ákveðið forskot hvað það varðar, innihaldi t.d. meira af andoxunarefnum og hollum fitusýrum og minna af lyfja- og varnarefnaleifum, svo eitthvað sé nefnt. Svo er þurrefnisinnihald þeirra oft hærra en í vörum sem ekki eru með lífræna vottun, sem þýðir að neytendur fá hugsanlega meira fyrir peningana sína, þar sem fleiri grömm af mat leynast í hverju kílói, svo einkennilega sem það kann annars að hljóma. Alla vega er óhætt að slá því föstu að lífrænar vörur séu að meðaltali betri fyrir heilsu og umhverfi en aðrar vörur. Og þegar talið berst að velferð dýra virðast yfirburðir lífrænu vörunnar vera þó nokkrir.

Enn er hægt að spyrja hvort það teljist nokkuð til tíðinda að lífrænt vottuð egg fari að fást í íslenskum matvöruverslunum. Þar hafi jú um langa hríð fengist egg sem eru merkt sem „vistvæn landbúnaðarafurð“. Því er til að svara að áletrunin „vistvæn landbúnaðarafurð“ á svo sem ekkert skylt við lífræna framleiðslu og þýðir reyndar ekki neitt sérstakt. Eins og staðan er í dag getur nefnilega hver sem er notað þessa merkingu eins og honum sýnist. Á sama hátt er ekkert sjálfgefið að egg í grænum eggjabökkum séu eitthvað „lífrænni“ en önnur egg, jafnvel þótt þau séu brún á litinn. Annað hvort er matvara lífræn í skilningi reglugerða eða ekki. Þar er ekkert millistig. Og eina marktæka staðfestingin á þessu er merki faggiltrar, óháðrar vottunarstofu. Þegar íslenskir neytendur sjá eggjabakka í næstu verslun með hringlaga merki Vottunarstofunnar Túns og orðunum „Vottað lífrænt“ þar fyrir neðan geta þeir, flestir í fyrsta sinn, keypt egg sem standa örugglega undir nafni sem lífræn framleiðsla. 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður